CaptureÍ dag kom á netið fræðandi skýrsla um þátttöku bænda á Norð-Austurlandi í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Rannsakandi er Jónína Sigríður Þorláksdóttir en hún var sumarnemi hjá Þekkingarnetinu í sumar og hafði vinnuaðstöðu á Þórshöfn. Þetta er í annað sinn sem Jónína vinnur að sumarverkefni hjá okkur en hún er stundar nú meistaranám í Umhverfis og auðlindafræði.
Í samantekt skýrslunnar segir: Rannsókn þessari er ætlað að varpa ljósi á upplifun bænda af þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu í ljósi nýrrar reglugerðar. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við bændur í Öxarfirði og Þistilfirði auk þess sem farið var í tvær þátttökuathuganir þar sem fulltrúum landgræðslunnar og landeigendum var fylgt eftir við mat á uppgræðslum. Flestir viðmælendur virtust telja að án þátttöku í gæðastýringu væri sauðfjárrækt óhagkvæm og því virðist fjárhagslegur ávinningur vera aðal hvati þátttöku. Viðmælendur voru þó almennt meðvitaðir um mikilvægi sjálfbærrar landnýtingar og virtust jákvæðir gagnvart landbótum. Gæðastýringin virðist vera ákveðin hvatning til samstarfs meðal hagsmunaaðila m.a. í gegnum landgræðslufélög og stuðla beint eða óbeint að aukinni umræðu um uppgræðslu og bætta landnýtingu. Upplifun flestra viðmælenda af nýrri reglugerð var hinsvegar m.a. sú að hún væri ekki nægilega vel kynnt og verkaskipting væri óljós. Með því að kynna gæðastýrða sauðfjárframleiðslu betur bæði meðal framkvæmdaraðila sem og út á við til almennings mætti auka skilvirkni og bæta árangur af þessu kerfi.

Skýrsluna má finna hér.

Deila þessum póst