4. alþjóðlega ráðstefnan um jarðskjálfta á Norðurlandi hafin

Í morgun hófst fjórða alþjóðlega ráðstefnan um jarðskjálfta á Norðurlandi á Húsavík. Ráðstefnan er vettvangur sérfræðinga á sviði jarðfræði, jarðskjálftafræði og verkfræði. Umfjöllunarefnið er allt frá því hvar jarðskjálftar verða, hvers vegna, hvenær og hversu stórir þeir geta orðið, sem og hvernig áhrifin frá þeim eru og hve langt þau ná.
Á ráðstefnunni kynnir íslenskt og erlent vísindafólk rannsóknir sínar og er sérstök áhersla lögð á að fá heildaryfirlit yfir samspil jarðskjálfta og samfélags og hvaða leiðir eru vænlegastar til minnkuna á áhættu af völdum stórra skjálfta.
Fyrri ráðstefnur hafa hjálpað vísindafólki að átta sig hvaða þekkingar er þörf og hvers konar rannsóknir þarf að vinna til að bæta úr því.

Sigurjón Jónsson prófessor við King Abdulla University of Science and Technology opnaði ráðstefnuna og Páll Einarsson, prófessor emeritus kynnti í kjölfarið yfirlit yfir helstu jarðskjálftarunur á Tjörnesbrotabeltinu síðan sögur hófust.

Ráðstefnan stendur til hádegis á fimmtudag. Meðal viðburða sem tengjast ráðstefnunni eru vísindaferð fyrir fjölskyldur undir klukkustundar leiðsögn jarðvísindafólks. Boðið verður upp á rútuferð um bæinn og nágrenni kl. 17:00 og tekur vísindaferðalagið tæpa klukkustund. Viðburðurinn er ókeypis en skráning nauðsynleg. Viðburðurinn er liður í starfi STEM Húsavík við að hvetja til og auka STEM-vitund í samfélaginu. Sætafjöldi er takmarkaður og nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn og þurfa börn, 15 ára og yngri, að vera í fylgd með fullorðnum.

Framapallborð með þátttöku vísindafólks þar sem nemendum í Borgarhólsskóla og Framhaldsskólanum á Húsavík gefst tækifæri til að kynna sér störf vísindafólks á svið jarðfræði, jarðskjálftafræði og verkfræði og tækifæri til starfa á þeim vettvangi í heimabyggðinni.

Lokaviðburður ráðstefnunnar er hádegisverðarfundur sem er opinn öllum og fer fram á Fosshótel Húsavík fimmtudaginn 20. október kl. 12:00.

Deila þessum póst