Þekkingarnet Þingeyinga er aðili að alþjóðlega verkefninu Cristal, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir. Undanfarna mánuði hefur vinna við verkefnið verið í fullum gangi og á næstu mánuðum verða keyrð prufuverkefni í nokkrum markhópum í skólum í Norðurþingi. Verkefnið snýst um að koma sjálfbærni, frumkvöðlamennt og tæknimennt inní kennslu á leik-grunn- og framhaldsskólastigi. Norðurþing er prufusvæði í verkefninu en afurð þess verður öllum opin á miðlægum gagnagrunni á netinu. Öllum skólum í Norðurþingi var boðin þátttaka í tæknihópi kennara og eru nú 6 kennarar þátttakendur í verkefninu. Í ágúst fór hópurinn á viku Fab-lab námskeið á Sauðárkróki, þar sem verið var að kynna grunnatriði í laserskurðartækni, þrívíddarprentun, örgjörvatölvun og fleiri forritum sem hægt er að nota til kennslu. Við prufukeyrslu verður meðal annars horft til þess að nýta Micro-bit örgjörvatölvur sem allir skólar fengu gefins fyrir nemendur í 6-7 bekk. Þá fer hópurinn til Sikileyjar í mars, þar sem kennslulota í sjálfbærni fer fram en einn af þátttakendum í verkefninu er sjálfbær ólívubúgarður á Sikiley sem hefur hlotið viðurkenningar fyrir frumleika og metnað við sjálfbærni og umhverfisvitund. Háskólinn á Akureyri er þátttakandi í verkefninu og eru nemendur sem læra til kennara nú að undirbúa verkefni um sjálfbærni, sem hægt er að kenna á leik- og grunnskólastigi. Þá er fyrirtækið Lindberg&Lindberg í Svíþjóð einnig aðili í verkefninu og koma þeir að því að smíða miðlægan gangagrunn þar sem hægt er að nálgast efni, niðurstöður verkefnis og kennsluefni. Í ágúst á þessu ári verður vinnudagur þar sem öllum skólum á starfssvæði Þekkingarnetsins gefst kostur á að kynna sér framgang verkefnisins, prufuverkefni kynnt og ferlið í kring um innleiðingu þessara verkþátta inní kennslu. Verkefninu lýkur í ágúst 2018.
Anna Björg rýnir í Arduino örgjörvatölvur, en þær er hægt að nota við forritun á ýmis konar hlutum.
Kristján Ingi við þrívíddarprentun en slíkur prentari er til staðar í Tæknismiðju ÞÞ og FSH á Húsavík.
Einfalt hjarta sem sett er inn í forritið 123 Make – það sneiðir hlutinn niður í form sem síðan er hægt að skera í laserskera, eins og sést á myndinni þar sem búið er að púsla hjartanu saman.
Anna Björg, Kolbrún Ada og Kristján Ingi með vegglímmiða úr vinylskeranum, það er verkfæri sem nokkuð einfalt er að kenna grunnskóla og framhaldsskóla nemendum að nota.
Karin reynir við örgjörvatölvurnar, getur virkað flókið í fyrstu.
Framvindufundur í nóvember 2016 með skólastjórnendum og tæknihópi kennara, ásamt þátttakendum Þekkingarnetsins, Háskólans á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Vincenza Ferrara frumkvöðull og ólívubóndi, á verkefnisstjórnarfundi í Reykjavík í desember 2016