Á þessu ári verða liðin 15 ár frá því Þekkingarnet Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands hófu starfsemi með aðalstarfsstöð á Húsavík.  Þessar stofnanir hafa eflst og dafnað nokkuð mikið á þessum tíma og starfsemin festst í sessi en þróast og breyst hratt á sama tíma líka. Stundum er það þannig með stofnanir og þjónustu sem er fyrir augum fólks daglega að hún verður sjálfgefin og vekur ekki endilega mikla athygli frá degi til dags.

Hér eru nokkrar tölulegar staðreyndir um Þekkingarnetið og tengda starfsemi sem kunna að koma einhverjum á óvart:

 • 600-1000 nemendur nýta nám eða námsþjónustu Þekkingarnetsins á ári hverju (alls um 10.000 á tímabilinu).
 • 300-500 námsráðgjafarviðtöl eru skráð ár hvert hjá Þekkingarnetinu.
 • Yfir 80 skýrslur hafa verið gefnar út af Þekkingarnetinu, mest rannsóknaskýrslur (sjá heimasíðu ÞÞ og Landsbókasafn).
 • Um 200-400 fjarpróf eru tekin árlega hjá Þekkingarneti Þingeyinga frá íslenskum og erlendum haskólum.
 • 6 námsver eru boðin á vegum Þekkingarnetsins í Þingeyjarsýslum, þar af mannaðar starfsstöðvar með sólarhringsaðgengi og heilsársstarfsmönnum á þremur stöðum; á Húsavík, Þórshöfn og í Mývatnssveit.
 • Yfir 100 vísindamenn og rannsóknanemar, íslenskir og erlendir, heimsækja þekkingarsetrið á Húsavík árlega til dvalar við rannsóknir og samstarf við heimastofnanirnar.
 • Um 100 milljón króna velta er hjá Þekkingarnetinu á ári (alls yfir 1 milljarður á tímabilinu).
 • Um 60% af tekjum Þekkingarnetsins er sjálfsaflafé og um 40% kemur af samningi við ríkið. Sveitarfélög bera enga ábyrgð á rekstri Þekkingarnetsins.
 • Um 15 heilsársstarfsmenn starfa við þekkingarstarfsemina, þar af 8-10 heilsársstarfsmenn hjá Þekkingarnetinu.
 • Yfir 100 manns hafa verið við störf og á launaskrá hjá Þekkingarnetinu einu á tímabilinu.
 • Starfsstöð Háskóla Íslands á Húsavík kom til vegna frumkvæðisvinnu og undirbúnings Þekkingarnetsins og Náttúrustofunnar.

 

Skýrslumynd-logo

Deila þessum póst