STEM Húsavík bauð fjölskyldum til rútuferðar um Húsavík og nágrenni í síðdegis í gær í tilefni af því að nú stendur yfir NorthQuake 2022, sem er alþjóðleg jarðskjálftaráðstefna sem nú er haldin í 4. skipti á Húsavík.
Ferðin lá fyrst norður úr bænum þar sem keyrt var yfir sprunguna sem liggur um Laugardalinn og ofan við Traðagerði og um Húsavíkurfjall upp að Þeistareykjum. Í Traðagerði fór hópurinn út og gekk upp að gili sem þar liggur. Gilið er merkilegt fyrir þær sakir að hluti þess hefur hliðrast um 50 m. Því næst fórum við í gegnum Húsavík og þar sem við fræddumst um að húsakostur á Húsavík liggur á mismunandi undirlagi sem hefur áhrif á hvernig við finnum fyrir hreyfingum af völdum jarðskjálfta. Ferðinni var að lokum heitið upp á Grjótháls hvar fékkst gott útsýni yfir Húsavíkur-Flateyjar misgengið.
Lokaorð ferðarinnar sneru að því að huga að forvörnum heimafyrir. Svo orð annars leiðsögumanns ferðarinnar séu notuð: „Ekki hafa þungan hlut fyrir ofan hægindastólinn hans afa.“
STEM Húsavík hlaut styrk úr lista- og menningarsjóði Norðurþings til að bjóða til ferðarinnar. Hún var vel sótt, um 22 gestir nýttu þetta einstaka tækifæri.
Leiðsögumenn voru þeir Benedikt Halldórsson, jarðskjálftaverkfræðingur, og Sigurjón Jónsson, jarðeðlisfræðingur.