Aftur til starfa

20140708_122356
Húsið var samt í fullri notkun í sumar, þótt flestir starfsmenn hafi verið í fríi.

Nú er fyrsta vinnuvikan eftir sumarfrí, hjá flestum starfsmönnum Þekkingarnetsins, að renna sitt skeið. Það er alltaf jafn hressandi að koma til baka eftir gott frí, endurnærður og tilbúin í verkefni vetrarins.  Fljótlega var skipt upp um gír og ráðist af festu og ákveðni á síðustu brekkurnar í skipulagningu haustannar. Nú er þetta farið að taka á sig góða mynd og flestar flækjur horfnar.

Síðastliðin tvö ár hefur námsvísirinn okkar verið gefinn út mánaðarlega en það fyrirkomulag hefur reynst okkur vel. Í ár munu hins vegar verða breytingar á útliti og broti Námsvísisins og fengum við Röðul Rey til að sjá um þá vinnu. Einnig fengum við til liðs við okkur ljósmyndaklúbbinn Norðurljós, sem samanstendur af áhugaljósmyndurum á svæðinu, til að útvega okkur forsíðumyndir á Námsvísinn. Nú fer þessari vinnu að ljúka og óhætt að segja að við séum ánægð með útkomuna.

Námskeiðaframboð haustannar er langt komið. Síðasta vetur var mjög mikil og góð þátttaka í stuttu námskeiðunum og sem fyrr voru þau námskeið sem tengdust matareiðslu/mataræði og hreyfingu vinsælust og að sjálfsögðu munum við áfram bjóða upp á slík námskeið. Eitt af markmiðum vetrarins er að ná inn fleiri karlmönnum á námskeið til okkar. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir af námskeiðum sem myndu falla vel í karlpeninginn þá erum við æst í að heyra þær. Senda má slíkar tillögur á hac@hac.is

IMG_6271
Það er gaman að spila á ávexti.

Þegar kemur að námsleiðunum, þá erum við með tvær í gangi ennþá frá vorönn; Opin smiðja á Raufarhöfn og Fagnám III – fyrir starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þessar námsleiðir klárast nú á haustönn. Stefnt er að því að bjóða upp á eina í viðbót en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hver verður fyrir valinu. Það mun að sjálfsögðu verða rækilega auglýst þegar það liggur fyrir.

Það er sem sagt allt að verða klárt fyrir haustið og við tökum því fagnandi, sem og temmilega svalri og hægri norðanáttinni sem rennur hér um Húsavíkina í þessum skrifuðu. Það mun taka nokkrar vikur að kæla svæðið niður eftir þetta ofboðslega hlýja, sólríka og góða sumar.

Deila þessum póst