Aldrei meira að gera í Fab Lab Húsavík.

Það hefur verið nóg að gera hjá okkur í Fab Lab Húsavík og viðtökur við námskeiðum farið fram úr væntingum. Meðal annars höfum við haldið tvö námskeið í munagerð þar sem seldist upp á stuttum tíma. Þar var unnið með Jasmonite gips steypuefni og gerðu þátttakendur vasa, kertastjaka og fleira. Það eru endalausir möguleikar í munagerð.

Örnámskeiðin okkar eru líka vinsæl og má þar nefna Sketchup sem er teikniforrit og þar lærðu nemendur að teikna hús og jafnvel sólpall.

Nú síðast var haldið námskeið um notkun á stórum fræsara og öryggismál í kringum hann. Kennt var á forritið Vcarve, hvernig á að teikna upp og yfirfæra teikningu í tölvustýrðan fræsara. Nemendur fóru á kostum og gerðu skilti og kolla og fleira. Á myndinni má sjá lokaverkefni sem Karin Gerhartl gerði, fræstur og laserskorinn kollur úr krossvið.

Engar áhyggjur! Við erum hvergi nærri hætt að bjóða upp á spennandi námskeið. Í haust stefnum við meðal annars á að kenna á saumavélina okkar sem er nýjasta tækið okkar og við erum með fleiri námskeið á prjónunum sem við munum auglýsa næsta haust!

Við mælum með því að áhugasamir fylgist vel með á heimasíðu Þekkingarnetsins og á samfélagsmiðlum Fab Lab Húsavík því það selst hratt upp á þau námskeið sem við auglýsum. Síðast seldist upp á innan við sólahring!

Við minnum á opna daga í Fab Lab alla miðvikudaga milli klukkan 15-17

 

Hér má sjá myndir frá fræsaranámskeiðinu og sýnishorn af munum frá Karin.

Hér má sjá muni frá Jasmonite munagerðarnámskeiðinu.

Deila þessum póst