Alþjóðlegur bragur á Þekkingarsetrinu

Segja má að það sé alþjóðegur bragur yfir starfsemi Þekkingarsetursins þessa dagana. Rannsóknasetur Háskóla Íslands hefur nú fengið góða gesti víða að til rannsóknaverkefna sumarsins. Þannig er japanskur hópur vísindamanna að rannsaka hvali á Skjálfanda í samstarfi við Marianne H. Rasmussen og hennar fólk hjá Háskólasetrinu.  Einnig hafa komið til verkefna til skemmri og lengri tíma í sumar hjá háskólanum meistara- og doktorsnemar á sviði sjávarspendýrafræða.  Þá hefur síðustu vikur verið danskt sjónvarpsfólk með annan fótinn á setrinu, en sá hópur vinnur að heimildamynd um steypireyðar og notar Skjálfanda til heimildaröflunar.

Utan þessara erlendu aðila eru tíðar heimsóknir íslenskra vísindamanna, m.a. fuglarannsakenda Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem eru í samvinnu við Náttúrustofu Norðausturlands.

Það má því með sanni segja að á þessum árstíma í sumarbyrjun verði n.k. „vaktaskipti“ í Þekkingarsetrinu þegar námsfólk leggst í sumardvala að loknum vorprófum og -verkefnaskilum. Við tekur rannsóknafólkið sem nýtir sumarið til gagnaöflunar og aðstöðu Þekkingarsetursins til vinnu við rannsóknir sínar.

Deila þessum póst