Nú stendur yfir undirbúningur hjá starfsmönnum Þekkingarnets Þingeyinga við að skipuleggja prófavertíðina sem framundan er. Nemendur úr hinum ýmsu skólum eru núþegar farnir að undirbúa próflesturinn og hafa margir komið síðustu daga á Þekkingarnetið til að ná sér í aðgangskort að húsinu svo þeir geti nýtt sér lesaðstöðuna þegar þeim hentar. Fyrstu prófin hefjast á föstudaginn næsta og lýkur prófatörninni um miðjan maí.
Eins og síðustu ár hefur Guðrún Ósk Brynjarsdóttir yfirumsjón með prófunum og sér hún til þess að nemendur fái rétt próf í hendurnar og að þau rati á réttan stað eftir að þau hafa verið þreytt. Sóldís Guðmundsdóttir mun að þessu sinni sjá um prófyfirsetu.
Við viljum minna nemendur á að hafa samband við starfsfólk Þekkingarnetsins ef þeir hafa áhuga á að nýta sér lesaðstöðuna eða hafa spurningar varðandi prófatöku.