Atvinnu- og nýsköpunarsetur á Þórshöfn

Langanesbyggð og Þekkingarnet Þingeyinga hafa nú skrifað undir samning um vinnu við undirbúning að myndun atvinnu- og nýsköpunarseturs að Fjarðarvegi 5 á Þórshöfn þar sem meðal annars verða starfsstöðvar ætlaðar fyrir störf án staðsetningar.
Um er að ræða vinnu við þarfagreiningu, þróun og mótun starfseminnar en vonir standa til að setrið verði tilbúið að vori. Að þessari vinnu kemur starfsfólk Þekkingarnetsins og starfsfólk Langanesbyggðar. Myndaður hefur verið vinnuhópur um verkefnið sem í eiga sæti fulltrúar Langanesbyggðar, Þekkingarnetsins og fulltrúi SSNE. Styrkur fékkst úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps til verksins og verður hann notaður til að undirbúa verkið.
Það voru Heiðrún Óladóttir verkefnastjóri Þekkingarnetsins á Þórshöfn og Björn S. Lárusson sveitarstjóri sem undirrituðu samninginn. Auk þeirra eru Óli Halldórsson forstöðumaður ÞÞ og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir sem kemur að verkefninu fyrir hönd ÞÞ.

Deila þessum póst