Það er margt í gangi hjá Þekkingarneti Þingeyinga þessa dagana. Eins og öllum er kunnugt hefur þurft að víkja tímabundið frá hefðbundinni útfærslu náms og námskeiða. Öll námsúrræði hafa nú verið færð í fjarlausnir með einum eða öðrum hætti. Jafnframt hefur Þekkingarnetið reynt að bregðast mjög skjótt við og setja nýja viðburði á dagskrá, bæði hagnýt námskeið og fróðleik sem og annað til að létta fólki lundina og verða til hvatningar.
Það sem er helst í gangi um þessar mundir er eftirfarandi:
- Föstudagsgesturinn alla föstudagsmorgna í samkomubanninu kl. 10:00, með upplífgandi uppákomum í opnu streymi yfir netið. Svavar Knútur reið á vaðið og Tvíhöfði fylgdi í kjölfarið. Þeir félagar lentu því miður í vesni með hljóðið hjá sér og hafa því ákveðið að mæta aftur til leiks í apríl. Nánari dagsetning verður auglýst síðar. Næsta föstudag mæta Vandræðaskáldin til okkar. Allar líkur á að það verði stórskemmtileg föstudagsheimsókn.
- Í kvöld bjóðum við upp á námskeiðið Góðar svefnvenjur barna og fullorðinna, sjá nánar hér. Næstu vikur bjóðum við svo upp á fleiri námskeið í fjarfundi, t.d. Hamingjan sanna, Fjölmenning – ólíkar þjóðir, Að takast á við erfiða viðskiptavini.
Einnig erum við á fullu í að skipuleggja fræðslu fyrir starfsfólk fyrirtækja og sveitarfélaga, því núna er einmitt góður tími til að efla alla fræðslu á vinnustöðum þar sem hefðbundin þjónusta liggur að miklu leyti niðri.
Við á Þekkingarnetinu erum alltaf klár í allt. Hafið endilega samband. Ekki koma samt 🙂