Frá því að FabLab Húsavík opnaði hafa dyr þess staðið galopnar fyrir alla íbúa svæðisins. Markmiðið er að fá inn fólk með hugmyndir, áhuga og orku í að búa eitthvað skemmtilegt til. Það er okkar verkefni sem störfum hér á Stéttinni að koma því út í samfélagið að FabLab Húsavík er eitt best tækjum búna FabLab á Íslandi og möguleikarnir til að búa til og skapa nánast óþrjótandi.
Fyrir nokkrum dögum kom til okkar málarinn, kennarinn og þungarokkarinn Björgvin Sigurðsson, eða Böbbi í Skálmöld. Hann var búinn að ganga með það lengi í maganum að merkja gítarinn sinn í laserskeranum okkar. Böbbi er í grunninn áhyggjufullur maður og fer sér yfirleitt ekki óðslega. Hann hafði því töluverðar áhyggjur af því að fara með gítarinn sinn í nokkrum pörtum út úr FabLabinu eftir meðhöndlun laserskerans. En Stefán Pétur yfir FabLabari er fagmaður fram í fingurgóma og eftir nokkra klukkutíma af vangaveltum um stillingar og prufukeyrslur á alls konar efni var látið vaða. Böbbi kom með tvær rúnir sem hann vildi brenna í gítarinn. Eina litla aftan á og svo stærri að framan.
Útkoman varð svo auðvitað frábær. Gítarinn orðin enn glæsilegri og Böbbi sáttur. Það er fátt skemmtilegra að en að sjá glaðan þungarokkara á föstudegi.
Takk fyrir komuna Böbbi og þið hin sem eruð með allskonar skemmtilegar pælingar, verið ævinlega velkomin í FabLab Húsavík.