Í rúman áratug hefur Þekkingarnetið rekið öfluga starfsstöð á Þórshöfn, undir heiti Menntasetursins á Þórshöfn. Fyrsti starfsmaðurinn var hún Gréta Bergrún Jóhannesdóttir sem Þekkingarnetið krækti í beint úr framhaldsnámi í Svíþjóð. Upphaflega kom Gréta til starfa sem háskólanemi við eitt af sumarrannsóknaverkefnum Þekkingarnetsins, en fékkst svo til starfa á heilsársvísu í kjölfarið. Gréta Bergrún hefur átt stóran hlut í þróun Þekkingarnetsins á þessum áratug, í gegnum fjölmörg og afskaplega fjölbreytt verkefni á sínu starfssvæði í hinum dreifðu byggðum Norður-Þingeyjarsýslu, m.a. í samstarfi við Heiðrúnu Óladóttur sem einnig starfar fyrir Þekkingarnetið á Þórshöfn. Framlag Grétu hefur þó kannski ekki síður verið það að eiga ríkan þátt í þróun og mótun áherslna rannsóknasviðs stofnunarinnar. Eitt af því sem þessi tími hefur sýnt afskaplega vel er það að hægur vandi er að starfa innan þekkingargeirans, við rannsóknir og tengd störf, í dreifðum og ólíkum byggðum landsins. Það sem til þarf er öðru fremur mannauðurinn sjálfur, fólk eins og Grétu, sem kýs að búa og starfa í sínu þorpi með sitt fólk. Hins vegar er það kerfisins, innviðanna margumræddu, að finna út leiðir til að búa til frjóan jarðveg og viðhalda honum í byggðunum, þ.m.t. góðar vinnuaðstæður og mátulegt aðgengi að straumum hins alþjóðlega, akademíska heims. Það þýðir með öðrum orðum að tryggja mátulega blöndu af fjar-samskiptum og ferðalögum innan og utan lands. Þetta hefur Þekkingarnetið lagt sig eftir að gera á Þórshöfn eins og annars staðar á sínu starfssvæði.
Þekkingarnetið þakkar Grétu Bergrúnu fyrir sitt verðmæta framlag og hlakkar til að eiga samstarf við hana áfram í gegnum sambýli í Menntasetrinu á Þórshöfn sem og mögulega samstarfsverkefni í tengslum við doktorsnámið, sem Gréta mun nú helga tímann sinn næstu misseri. Engin áform eru um annað en að reka Menntasetrið á Þórshöfn af sama myndarbrag í samstarfi við Langanesbyggð.
Hluti starfsfólks Þekkingarnetsins á vinnufundi í gær sem haldinn var á Kópaskeri (Melum). Gréta Bergrún var kvödd við sama tækifæri.