Þann 5.-11. febrúar næstkomandi munu 7 manns heimsækja Västerås í Svíþjóð á vegum CRISTAL verkefnisins (Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning). Í hópnum eru 4 kennarar úr Norðurþingi auk starfsmanna Þekkingarnets Þingeyinga, Háskólans á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Tilgangur heimsóknarinnar er að kynna sér áherslur á tækni í sænsku skólakerfi og að vinna að þróun svokallaðrar verkfærakistu og sýndarkennslustofu sem eru tvær þeirra afurða sem eiga að koma út úr verkefninu.
Hópurinn mun heimsækja nokkra staði. Þeirra á meðal eru ABB Industrigymnasium, ReTuna og Tom Tits Experiment. ABB Industrigymnasium er framhaldsskóli þar sem lögð er áhersla á tæknimenntun og frumkvöðlafræði. ReTuna er verslunarmiðstöð þar sem eingöngu eru seldar endurunnar og endurnýttar vörur. Auk þess hafa þeir sem standa að verslunarmiðstöðinni þróað eins árs nám sem á ensku kallast „recycle design“ eða endurvinnslu hönnun. Tom Tits Experiment er vísindasetur þar sem fjölskyldur og skólahópar geta komið og gert hinar ýmsar vísinda- og tæknitilraunir.
Sænskir samstarfsaðilar okkar í CRISTAL verkefninu hafa á undanförnum misserum unnið að því að þróa veflægt þekkingarsetur sem mun meðal annars innihalda verkfærakistu fyrir kennara á öllum skólastigum og sýndar kennslustofu. Hópurinn mun í ferðinni koma að þeirri vinnu með því að prufukeyra verkfærin og koma með tillögur að frekari þróun þannig að afurðirnar muni nýtast kennurum sem best í framtíðinni.
Hér má sjá hluta hópsins ásamt erlendum samstarfsaðilum fyrr á árinu þegar hópurinn lagði land undir fót og heimsótti Sikiley til að afla sér þekkingar tengda sjálfbærni og tækni.