Dr. Rögnvaldur Ólafsson stjórnarmaður Þekkingarnets Þingeyinga látinn

Dr. Rögnvaldur Ólafsson lést nýverið, en hann er einn af þeim sem mest áhrif hafa haft á mótun og þróun Þekkingarnets Þingeyinga. Rögnvaldur sat í stjórn Þekkingarnets Þingeyinga frá stofnun til dánardags. Hann hafði einnig í gegnum störf sín hjá Háskóla Íslands bein og óbein áhrif á starfsemi samstarfstofnana á STÉTTINNI á Húsavík, t.a.m. Rannsóknasetur Háskóla Íslands og Náttúrustofu Norðausturlands.

Rögnvaldur hafði mikil áhrif á nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi í gegnum innleiðingu stafrænnar tækni í samstarfi við Fiskiðjusamlag Húsavíkur og fleiri fiskvinnslufyrirtæki. Þetta samstarf leiddi m.a. til stofnunar Marels hf. eins og mörgum er kunnugt um.

Stjórnendur Þekkingarnets Þingeyinga fylgdu Rögnvaldi síðasta spölinn við útför hans frá Neskirkju. Stjórn og starfsfólk Þekkingarnetsins og tengdra stofnana votta fjölskyldu Rögnvaldar samúð.

[Myndir: frá fundi Rögnvaldar með ráðherra háskóla og nýsköpunar og samstarfsmönnum frá Marels-árunum á Húsavík á STÉTTINNI á Húsavík í sept. 2022.]

 


Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnetsins ritaði nokkur minningarorð í Morgunblaðið um Rögnvald sem hér eru birt að neðan:

Rögnvaldur Ólafsson

Minning

Þetta var einhver stærsti gsm sími sem ég hef séð. Einn af þessum með útdraganlegu loftnetin. Rögnvaldur Ólafsson hélt símtækinu við eyrað þar sem hann stóð á gangstéttinni við Hlemm fyrir rúmum tveimur áratugum. Hann beið eftir okkur tveimur ungum mönnum, mér og Linda vini mínum, þar sem við hugðumst boða honum fagnaðarerindi í uppbyggingu þekkingarinnviða í heimabyggð okkar. Við brostum í kampinn og töldum þennan fullorðna háskólakarl með stóra símann líklega svolítið af gamla skólanum. Það mat var eins rangt og það gat verið.  Við komumst auðvitað að því fljótt að Rögnvaldur átti drjúgan þátt í að tölvuvæða Ísland og hafði dýpri þekkingu á stafrænni þróun en nokkurt ungmenni.  Rögnvaldur vissi að framþróun af þessu tagi snýst ekki um að fyllilega nýtilegir hlutir verði óþarfir að öllu leyti um leið og eitthvað nýtt kemur á markað. Kannski var þetta ein ástæða þess að garðslöngubúta mátti finna í frumgerðum annars byltingarkenndra tölvuvoga sem Rögnvaldur átti þátt í að þróa í árdaga Marel. Af þeim þremur sem stóðu í hnapp við Hlemm um árið var það Rögnvaldur sem var snjall. Ekki stóri síminn eða viðmælendurnir.

Fundurinn okkar með Rögnvaldi við Hlemm varð afdrifaríkur í mínu lífi. Margt gerðist hljóðlega í kjölfar þessara fyrstu kynna sem eftir á að hyggja hefði farið á annan veg. Skilningur, stuðningur og áhrif Rögnvaldar ollu því að mál komust í farveg. Áheyrn fékkst þar sem þurfti. Rögnvaldur var einkar laginn að sjá heiminn ekki eingöngu frá þrönga sjónarhorninu sem okkur er tamast að horfa út frá. Hlusta jafnt á ungt fólk og eldra, verkafólk og vísindamenn. Þetta var rauður þráður í allri nálgun Rögnvaldar.

Það skyldu okkur Rögnvald að nokkrir áratugir í aldri, en með okkur tókst náið samstarf sem teygðist smám saman út fyrir vinnuna að mannlegum hliðum lífsins. Ótal samtöl áttum við á öllum mögulegum sólarhrings- og árstímum. Samtöl um framtíðina og hugmyndirnar okkar hverju sinni, um samfélög og sálir, sorgir og sigra. Um það sem þurfti, þegar þurfti. Rögnvaldur Ólafsson var áhrifavaldur í alvöru merkingu þess orðs. Ekki bara á líf fólksins hans sjálfs, eða mitt líf og minna. Heldur líf margra og víða. Á atvinnu og samfélög. Á byggðir og byltingar.

Með einlægu þakklæti fyrir kynni, ráð og dáð færi ég Rögnvaldi vini mínum hinstu kveðju. Um leið ber ég Sigríði og fjölskyldunni allri dýpstu samúðarkveðjur frá mér sem og samstarfsfólki og vinum hans í baklandi og stjórn Þekkingarnets Þingeyinga og samstarfsstofnana á Stéttinni á Húsavík.

Óli Halldórsson, Húsavík

Deila þessum póst