Hvað getum við gert fyrir þig?

  

Þegar nýtt ár gengur í garð, í þetta skiptið hefur það meira að segja með 366 óskrifaða daga til að fylla út í, fara margir fram með fögur fyrirheit um að verða betri á allan mögulegan hátt. Oftar en ekki verða markmiðin beint og óbeint heilsutengd. Við stefnum á færri kíló, ketó, meiri hreyfingu og þar fram eftir götunum. Vopnuð vatnsbrúsa, æfingafatnaði, prógrammi frá einkaþjálfara eða einhvers konar áskrift að líkamsrækt rjúkum við af stað.

Þegar kemur að vinnu og námi horfum við gjarnan líka í jákvæðari áttir um áramót. Við viljum auka þekkingu okkar, bæta okkur í starfi eða eiga möguleika á nýjum störfum. Eins og með heilsustengdu markmiðin getur verið gott að fá leiðsögn og/eða aðgang að aðstöðu til að ná þeim markmiðum.

Hjá Þekkingarneti Þingeyinga starfa nú 8 manns. Við erum búin að reima á okkur skóna, fylla á vatnsbrúsana og stöndum klár að taka á móti nýju fólki og fyrirtækjum með allskyns sérsniðnar leiðir í námi, ráðgjöf og rannsóknum.

En hvað bjóðum við upp á og hvernig getum við stutt við þig eða fyrirtækið þitt þannig að markmið ársins 2020 verði að veruleika?

• Við sinnum allri almennri náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði, atvinnuleitendur, háskólanema og aðra sem þarfnast leiðsagnar varðandi nám, störf og áhugasvið. Ráðgjöfin er ókeypis og hægt að bóka tíma með því að hringja eða senda tölvupóst.

• Við sinnum greiningu fræðsluþarfa starfsmanna í gegnum verkefni sem byggist á því að lána mannauðsstjóra til fyrirtækja. Starfsþróun er ein mikilvægasta leiðin til að bæta og þróa fyrirtæki og ráðgjafarnir okkar búa yfir sérhæfðri þekkingu á vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun. Ef fyrirtæki eða stofnun vill aðstoð við fræðslumálin þá býður Þekkingarnetið upp á fræðslustjóra að láni í samvinnu við starfsmenntasjóði stéttarfélaga. Hægt er að sækja um styrk að fullu fyrir verkefninu og aðstoða starfsmenn ÞÞ við það.

• Við sinnum námskeiðahaldi fyrir bæði einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Framundan eru nokkur áhugaverð námskeið sem eru öllum opin. Mannlegi millistjórnandinn verður í janúar og í febrúar verður námskeiðið Verkefnastjórnun, fyrstu skrefin. Bæði námskeiðin til þess fallin að bæta færni einstaklinga en líka að þróa starfsemi fyrirtækja og stofnana.

• Við sinnum háskólanámsþjónustu fyrir háskólanema samkvæmt samning við ríkið. Í þjónustunni felst m.a. það að námsmenn eiga kost á að nýta aðstöðu Þekkingarnetsins á Húsavík, í Reykjahlíð og á Þórshöfn allan sólarhringinn þeim að kostnaðarlausu ásamt því að þeir geta tekið próf á starfsstöðvum og í námsverum Þekkingarnetsins sem staðsett eru víða í Þingeyjarsýslu.

• Við sinnum ýmsum stórum og smáum rannsóknatengdum verkefnum og veitum rannsakendum á svæðinu þjónustu í formi aðstöðu og aðstoðar við rannsóknir sem fram fara á starfssvæði Þekkingarnetsins. Helstu verkefni okkar þar eru t.d. að fylgjast með þróun mannfjölda á svæðinu, halda utan um og reka Sjálfærniverkefnið á Norðausturlandi, framkvæma kannanir eins og Hamingjukönnunina sem lögð var fyrir í Skútustaðahreppi og koma að skipulagi og framkvæmd alþjóðlegra ráðstefna eins og Northquake.

Þessu til viðbótar þá höfum við verið að vinna að því að gera fólki á okkar starfssvæði enn auðveldar fyrir að sækja sér frekari þekkingu eða bæta færni sína með samkomulagi við starfsmennasjóði sem greiða þá fyrir þátttöku sinna félagsmanna.

Ertu félagsmaður í Starfsmannafélagi Húsavíkur? Ef svo er þá býðst þér að sækja verkefnastjórnunarnámskeiðið þér að kostnaðarlausu. Skráning fer fram á vef starfsmenntar www.smennt.is

Ertu starfsmaður sveitarfélags eða ríkisins og félagsmaður í Framsýn eða Verkalýðsfélagi Þórshafnar? Ef svo er þá býðst þér að sækja námskeiðin mannlegi millistjórnandinn og verkefnistjórn, fyrstu skrefin þér að kostnaðarlausu. Auk þess eru öll tungumálanámskeið og öll námskeið sem geta talist starfstengd (sameiginlegt mat starfsmanns og yfirmanns) þér að kostnaðarlausu.

Jafnframt endurgreiða allir starfsmenntasjóðir hluta þátttökugjalda á önnur námskeið en viðmið og reglur hvers sjóðs eru þó mismunandi. Allir sem eru á vinnumarkaði eru eindregið hvattir til að kynna sér hvaða rétt þeir hafa til endurgreiðslu og nýta sér hann. 

Ert þú tilbúin til að stíga næstu skref til að ná náms- og starfstengdum markmiðum þínum á árinu 2020? Við erum til og tökum vel á móti ykkur.

Deila þessum póst