Þeir voru glaðlegir nemendurnir á löggildingarnámskeiði vigtarmanna í Menntasetrinu á Þórshöfn núna í morgunsárið. Það er líka alltaf gaman að geta tekið svona löng námskeið í heimabyggð í gegnum fjarfundabúnað í stað þess að þurfa að ferðast þvert yfir landið en námskeiðið tekur tvo og hálfan dag. 13 manns frá þremur fyrirtækjum sitja námskeiðið, en Ísfélagið, Toppfiskur og Norðurþing eiga þarna fulltrúa. Loðnan gekk í lið með okkur, en hún ákvað að láta sig hverfa rétt á meðan til að allir sem skráðir voru gætu mætt á námskeiðið. Við ættum þannig að eiga nóg af löggiltum vigtarmönnum á svæðinu í lok vikunnar. Síðan er bara að vona að loðnan láti sjá sig á ný að námskeiði loknu.