Þessa dagana eru 21 starfsmaður frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) að ljúka námskeiðum í skyndihjálp. Alls ljúka 13 manns 12 stunda grunnnámskeiði en 8 manns ljúka 4 stunda upprifjunarnámskeiði. Þetta er annað árið í röð sem starfsmenn HSN flykkjast á skyndihjálparnámskeið en á síðasta ári sóttu 38 manns 4 stunda upprifjunarnámskeið og 11 manns 12 stunda grunnnámskeið. Námskeiðin eru kennd af leiðbeinendum Rauða krossins í Þingeyjarsýslum og hefur Björgvin Árnason sem einnig er starfsmaður HSN haft kennsluna á sínum höndum.
Námskeiðin eru liður í fræðsluáætlun HSN en í kjölfar sameiningar heilbrigðisstofnana á Norðurlandi leituðu forsvarsmenn HSN til símenntunarmiðstöðvanna þrigga sem starfa á Norðurlandi, Farskólans á Norðurlandi vestra, SÍMEY og Þekkingarnets Þingeyinga um að fá „fræðslustjóra að láni“ til að greina fræðsluþarfir starfsmanna. Að greiningarvinnunni lokinn var útbúin fræðsluáætlun til þriggja ára sem nú er unnið eftir og eru árleg skyndihjálparnámskeið liður í þeirri áætlun.
Verkefnið „fræðslustjóri að láni“ er fyrirtækjum að kostnaðarlausu þar sem það er styrkt af fræðslusjóðum sem greiða fyrir vinnu ráðgjafa. Frekari upplýsingar um verkefnið má fá hjá starfsfólki Þekkingarnetsins í síma 464-5100 og á hac@hac.is