Vinnufundur um rannsóknir á eðli og umfangi jarðskjálftahreyfinga á Húsavík og nágrenni

Hópurinn sem fundaði á Húsavík ásamt Dr. Sigurjóni Jónssyni og Dr. Benedikt Halldórssyni.
Hópurinn sem fundaði á Húsavík ásamt Dr. Sigurjóni Jónssyni og Dr. Benedikt Halldórssyni.

Dagana 22.-25. júní var haldinn vinnufundur í Þekkingarsetrinu  á Húsavík í tengslum við verkefni sem ber heitið „Vöktun virkra jarðskjálftasprungna og kortlagning jarðskjálftaáhættu í þéttbýli”. Um er að ræða öndvegisverkefni Rannís sem leitt er af Dr. Benedikt Halldórssyni, rannsóknarprófessor í jarðskjálftaverkfræði við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði og Dr. Sigurjóni Jónssyni, dósent í jarðeðlisfræði við King Abdullah University of Science and Technology í Saudi Arabíu. Í verkefninu sameinast verkfræðingar og jarðvísindamenn í vöktun jarðskorpuhreyfinga á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, í þeim tilgangi að kortleggja aflögun jarðskorpunnar í kringum Húsavík vegna landreks og mæla yfirborðshreyfingar í jarðskjálftum. Með verkefninu er vonast til að hægt verði að meta á betri hátt en áður hefur verið gert þá mögulegu yfirborðshreyfingu sem sterkir jarðskjálftar á misgenginu gætu valdið á Húsavík og umfang og breytileika hreyfingarinnar innanbæjar á Húsavík. Þá verður lagt mat á þá jarðskjálftaáhættu sem slíkar hreyfingar valda. Þess má einnig geta að mælakerfi hefur einnig verið sett upp í sjúkrahúsinu á Húsavík og mun slíkt kerfi gera kleift að meta á hverjum tíma eiginleika mannvirkisins með tilliti til sveiflna vegna jarðskjálfta og vinds. Slíkt er nefnt “health monitoring” mannvirkja og á það vel við í þessu tilfelli. Á fundinum kom saman hópur sérfræðinga til að funda um verkefnið. Um var að ræða fjölfaglegan og alþjóðlegan hóp á sviði jarðskjálftaverkfræði (earthquake engineering), jarðskjálftafræði (seismology), jarðeðlisfræði (geophysics), mælitækni (monitoring) og tölfræði (statistics). Fundinn sátu 12 manns, þar af voru fjórir íslenskir, en aðrir þátttakendur voru frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Grikklandi, Íran og Búlgaríu. Á fundinum gáfu verkefnisstjórar yfirlit yfir stöðu þekkingar og rannsókna á jarðskjálftabelti Norðurlands og innlendra rannsókna á sviði jarðskjálftaverkfræði. Farið var í skoðunarferð um svæðið auks þess sem þátttakendur kynntu rannsóknir sínar og hlýddu á fyrirlestra þriggja doktorsnemenda sem munu inna af hendi mestu vinnuna við verkefnið. Fundurinn þótti vel heppnaður og nemendunum fannst gott að fá heildarsýn yfir verkefnið og að hitta aðra sérfræðinga sem miðluðu af reynslu sinni. Hópnum þótti Húsavík sérstaklega fallegur staður enda ekki annað hægt í þeirri einstöku veðurblíðu sem mannskapurinn naut á meðan dvölinni stóð. Áætlað er að verkefninu verði lokið 2017-2018 og muni skila niðurstöðum sem hafi þýðingu fyrir skilning okkar á eðli og umfangi þeirra jarðskjálftahreyfinga sem talið er að séu mögulegar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og breytileika þeirra innanbæjar á Húsavík. Vonast er til að slíkt muni bæta núverandi mat á jarðskjálftahættu og –áhættu fyrir bæjarfélagið og næsta nágrenni.

Deila þessum póst