Búsetugæði í Þingeyjarsýslum

Í dag kom út ný skýrsla þar sem búsetugæðum í Þingeyjarsýslum eru gerð skil. Samkvæmt niðurstöðum könnunar um búsetugæði í Þingeyjarsýslum eru íbúar í Þingeyjarsýslum nokkuð ánægðir með búsetugæði sín þegar á heildina er litið en ánægðastir eru þeir með návígið við náttúruna, gæði heilbrigðisstofnana og aðgengi að grunnskóla. Þeir voru þó síður ánægðir með stöðuna á húsnæðismarkaði og matvöruverð á svæðinu. Framtíðarsýn íbúa var heilt yfir góð og væntingar þeirra til þátta er vörðuðu atvinnulíf, fjárhagslega afkomu og mannfjöldaþróun á svæðinu voru nokkuð meiri nú en í fyrri könnun.
Niðurstöður könnunarinnar sem lögð var fyrir á árinu 2018 voru á margan hátt svipaðar og í hliðstæðri könnun frá árinu 2009 þó ánægja íbúa hefði greinilega aukist í atvinnu- og samgöngumálum. Líkt og í fyrri könnun var nokkur munur á upplifun íbúa eftir svæðum á matsþáttunum. Íbúar á austursvæðinu voru óánægðari en aðrir með flest það er sneri að þjónustu við íbúa sem og fjölbreytni atvinnu- og mannlífs en voru þó ánægðari með verð á húsnæðismarkaði.
Athygli vekur að þegar spurt var um starfsemi kísilvers PCC BakkiSilicon hf. töldu flestir íbúar á nærsvæði starfseminnar að hún myndi hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt og styrkja byggð í því. Á sama tíma töldu þeir ólíklegt að hún myndi auka atvinnumöguleika þeirra eða að þeir myndu sjálfir sækja vinnu í kísilverinu eða í tengdum störfum. Svipuð svör komu fram hjá íbúum varðandi umskipunarhöfnina í Finnafirði þó heldur færri teldu að hún myndi styrkja byggð í samfélaginu.

Deila þessum póst