Alþjóðlegt háskólanámskeið á Húsavík

Síðari hluta júnímánaðar stóð yfir námskeið á vegum Háskóla Íslands sem haldið var að öllu leyti á Húsavík. Um er að ræða árlegt vettvangsnámskeið í sjávarspendýrafræðum, „Að rannsaka sjávarspendýr í viltri náttúru“, sem dr. Marianne H. Rasmussen forstöðumaður Rannsóknasetursins á Húsavík heldur utan um. Námskeiðið er kennt á ensku og er ávallt mjög alþjóðlegur bragur yfir því og nemendur víða að úr heiminum sækja námskeiðið. Nemendurnir dvelja á Húsavík í 1-2 vikur á meðan kennslu stendur og fá bæði bóklega kennslu frá Marianne og fleiri fræðimönnum á þessu sviði en einnig og ekki síður er lagt upp úr því að kynna nemendur fyrir rannsóknaaðferðum sem notaðar eru við hvalarannsóknir á Skjálfanda. Í ár sóttu 24 nemendur námskeiðið, þar af var einn íslendingur, búsettur á Húsavík. Þá kom þýskur nemandi alla leið frá Perth í Ástralíu til að taka þátt í námskeiðinu og má því segja að vinsældir þess nái þvert yfir hnöttinn. Almenn ánægja var meðal nemenda með skipulagningu námskeiðsins en meðal fyrirlesara voru Dr. Ole Lindquist sérfræðingur í sögu hvalveiða í Norður-Atlantshafi og Sabrina Brando eigandi Animal Concepts sem vinnur ma. að velferð dýra í dýragörðum. Gaman er að segja frá því að oftar en ekki snýr hluti nemendanna aftur til Húsavíkur, til að nema við Rannsóknasetur Háskóla Íslands eða til að starfa sem leiðsögumenn hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum í bænum, enda er námskeiðið góð kynning bæði á Húsavík og Skjálfandaflóa.

Þetta árlega námskeið Háskóla Íslands er mjög skemmtileg viðbót við hefðbundna starfsemi í Þekkingarsetrinu á Húsavík. Með þessu má segja að birtist glögglega sú stefna að samnýta húsnæði og aðstöðu þekkingarsetursins fyrir námsfólk úr heimahéraði og rannsakendur. Þessi alþjóðlegi hópur háskólanema í sjávarlíffræði leggur þannig undir sig vinnurýmið sem yfir veturinn er notað af heimafólki í framhaldsfræðslu og háskólafjarnámi.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Marianne með nemendahóp við rannsóknir um borð í hvalaskoðunarbát á Skjálfanda.

edda
Edda Elísabet Magnúsdóttir við hljóðmælingar á Skjálfanda.

Deila þessum póst