Það er mikið um að vera hjá Þekkingarnetinu þessa dagana. Undanfarna daga hefur húsnæðið á Hafnarstéttinni á Húsavík verið fullnýtt frá morgni til kvölds. Það eru lengri námsleiðirnar sem eru umfangsmestar, þ.e. skrifstofuskólinn, fagnám fyrir leikskólastarfsmenn og fagnám starfsmanna í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í þessum námsleiðum þremur sitja á þriðja tug nemenda og fer námið fram seinniparta dags og á kvöldin að mestu leyti.
Þar fyrir utan hafa sjúkraliðar setið fjarnámskeið síðastliðin kvöld og háskólanemar frá HA setið sína reglulegu fjarfundi.
Í upphafi vikunnar var svo komið að allar stofur og fundarými voru full á Hafnarstéttinni og sat einn hópur inni á skrifstofu forstöðumanns, þar sem búið var að stilla upp skjá til fjarfundar.
Það eru skemmtilegir vinnudagar á Þekkingarsetrinu þegar svo mikil starfsemi er í gangi og í versta falli hægt að líta á það sem lúxusvandamál þegar öll rými fyllast af nemendum!