Apríl námskeiðin

IMG_7806Námsvísirinn ætti núna að vera komin inn á öll heimili á starfssvæðinu okkar og erum við nokkuð viss um að flestir, ef ekki allir, hafi tekið sér góða stund í að renna gaumgæfilega yfir hann.

Fyrir þá sem eru fljótir að gleyma eða hafa ekki komist í að fletta honum, þá er okkur bæði ljúft og skylt að rifja upp fyrir ykkur innihaldið.

Á Raufarhöfn verður boðið upp á bráðskemmtilegt námskeið sem kallast Hamingja í lífi og starfi. Þar mun Anna Lóa Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY aðstoða þátttakendur við að skoða sjálfa sig, hvar þeir eru staddir varðandi hamingju í lífi og starfi og hvernig má auka líkur á að okkur takist að koma á þeim breytingum sem við sækjumst eftir í lífinu.

 

Silja Jóhannsdóttir mun einnig halda námskeið á Raufarhöfn í apríl. Mun hún sjá um grunnnámskeið í Word og Excel.

Á Þórshöfn verður líf og fjör, eins og alltaf. Ásdís Sigurðardóttir, íþróttafræðingur og markþjálfi mun mæta á svæðið og kenna heimamönnum Stafgöngu. Farið verður yfir undirstöðuatriðin og tæknin útfærð til að ná sem bestum árangri við gönguna.

Einnig mun Anita Karin Guttesen mæta á svæðið og halda bráðsniðugt Textaskiltanámskeið. Þar læra þátttakendur að búa til sitt eigið skilti með hnyttnum texta eða fallegu ljóðbroti. Hver þátttakandi gerir tvö skilti á námskeiðinu.

Anita mun að sjálfsögðu líka halda þetta námskeið í sínum heimabæ, Laugum. Að auki ætlar Anita að bjóða upp á Keramiknámskeið í vinnuaðstöðu sinni í Breiðanesi. Þar verða kenndar grunnaðferðir í mótun leirs og farið verður í gegnum ferlið frá mótun til brennslu og glerjunar viðfangsefnisins.

Á Húsavík verður boðið upp á Laserskurðarnámskeið. Þátttakendur fá að prófa laserskurðarvél og kynnast því sem þessi tækni hefur að bjóða. Allir fá að skera hlut út í mdf viðarplötu með vélinni en byrjað verður á að fara yfir grunnatriði í Inkskape forritinu, sem er ókeypis hugbúnaður af netinu.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir mun kenna á námskeiðinu.

Berglind Dagný Steinadóttir mun svo standa fyrir Hveitikímnámskeiði, bæði á Húsavík og í Mývatnssveit. Þar verður unnið með hráefnið hveitikím, innihald og eiginleika þess. Sýndar verða aðferðir til að útbúa uppáhaldsréttina úr hveitikími á nýjan og næringarríkan hátt án hveitis og sykurs. Gerðir verða pizzabotnar, tortilla kökur og brauðbollur.

 

Að lokum er rétt að minna á námskeiðið Tákn með tali sem haldið verður á Húsavík fimmtudaginn 7. apríl. Aðeins eru örfá sæti laus á það námskeið.

 

Sumsé, eitthvað fyrir alla.

Frekari upplýsingar here eða í síma 464-5100

Deila þessum póst