Í morgun fengu starfsmenn Þekkingarnetsins heimsókn frá Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt. Hún tók að sér það verkefni að kynna fyrir starfsfólkinu helstu tæki og tól sem saman mynda Fab Lab. Fab Lab er stafræn smiðja með tækni- og tækjabúnaði til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.
Til að gefa starfsfólki Þekkingarnetsins hugmyndir um hvernig má nota þessa tækni í kennslu fór Arnhildur yfir notkunarmöguleika iPad og ýmis sniðug forrit sem hægt er að notast við með iPad. Einnig sýndi hún hvernig MakeyMakey tölvurnar virka sem og þrívíddarprentarar. Þetta var frábær kynning sem gaf starfsfólkinu margar skemmtilegar hugmyndir. Það er nokkuð ljóst að við bíðum spennt eftir að kynna okkur þetta betur, prófa ýmislegt og að lokum nýta okkur þessa tækni til að miðla þekkingu áfram til nemenda.