Góð mæting var á fyrirlestur Lilju B. Rögnvaldsdóttur um þróun og stöðu ferðaþjónustu á Húsavík í Hvalasafninu í gær. Í fyrirlestrinum kynnti Lilja niðurstöður ferðavenjukönnunar sem lögð hefur verið fyrir erlenda ferðamenn á Húsavík sl. tvö sumur.
Helstu niðurstöður sýna að flestir þeirra erlendu gesta sem heimsóttu Húsavík sumrin 2013 og 2014 komu frá Mið- og Suður-Evrópu. Þegar hópurinn er skoðaður í heild sinni má segja að þessir gestir hafi almennt verið vel menntaðir, vel stæðir og flestir búsettir í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Sviss, Bretlandi eða Benelux löndunum. Meðalaldur þeirra var um 40 ár og oftast var tilgangur heimsóknar þeirra til Húsavíkur að skoða hvali. Um helmingur gesta gisti yfir nótt á Húsavík og meðaldvalarlengd næturgesta var um 1,5 dagar. Flestir gestanna ferðuðust með fjölskyldu og vinum og algengasti ferðamátinn var bílaleigubíll. Í flestum tilvikum hafði verið tekin ákvörðun um að heimsækja Húsavík áður en komið var til Íslands og upplýsingar um staðinn fengust gjarnan í ferðabókum og á Internetinu. Meðalútgjöld bæði árin voru um 16.000 krónur á sólarhring og stærsti útgjaldaliðurinn afþreying. Lítill munur er á niðurstöðum kannananna á milli ára.
Að kynningu lokinni varpaði Lilja fram spurningu til fundargesta hvort ekki væri kominn tími til að huga að frekari stefnumótun atvinnugreinarinnar á svæðinu. Til að stuðla að sem blómlegustum vexti ferðaþjónustunnar verði að eiga sér stað samstarf og sátt á milli ferðaþjónustuaðila, íbúa staðarins, sveitarfélagsins og ferðamannanna sjálfra auk þess sem innviðir og umhverfi þurfa að geta staðið undir slíkum vexti.
Fundargestir tóku margir hverjir undir það sjónarmið og töldu mikilvægt að framtíð atvinnugreinarinnar væri rædd og hvaða hugmyndir menn hefðu um hana. Jafnframt kom fram að sameiginleg markaðssetning ferðaþjónustuaðila á Húsavík sem höfuðstaðar hvalaskoðunar á Íslandi hefði verið gott skref í samvinnu ferðaþjónustuaðila.
Eftir fyrirlesturinn sköpuðust umræður meðal annars um afþreyingu ferðamanna á Húsavík, hvort hvalaskoðun væri komin að þolmörkum yfir sumartímann og hvaða tækifæri lægju í vetrarferðamennsku.
Ferðavenjukönnunin er partur af stærra rannsóknarverkefni sem unnið er í samstarfi Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Þekkingarnets Þingeyinga.
Frekari niðurstöður rannsóknarinnar má finna hér.