Frá lokaráðstefnu CRISTAL í Borgarhólsskóla haustið 2018
Þann 30. nóvember sl. lauk CRISTAL verkefninu sem Þekkingarnet Þingeyinga og skólasamfélagið í Norðurþingi hafa verið þátttakendur í. CRISTAL stendur fyrir Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning eða skapandi héruð fyrir nýsköpun, færni, tækni, aðgengi og nám. Megintilgangur CRISTAL verkefnisins var að efla kennslu með nýskapandi aðferðum í svokölluðum STEM greinum, þ.e. vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði með ásamt því að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Verkefnið náði til leik-, grunn- og framhaldsskóla auk framhaldsfræðslu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrði verkefninu og voru Þekkingarnet Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri meðal íslenskra samstarfsaðila verkefnisins. Erlendir samstarfsaðilar voru Lindberg & Lindberg engineering AB í Svíþjóð og Azienda Agricola „DORA“ á Ítalíu.
Samstarfshópur CRISTAL-verkefnisins á fundi á Húsavík
Meðal verkefna Þekkingarnetsins var að halda utan um svokallaðan tæknihóp verkefnisins sem samanstóð af sex kennurum úr skólum í Norðurþingi. Hópinn skipuðu þau Anna Björg Leifsdóttir, Karin Gerhartl, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, Kristján Ingi Jónsson, Sigurður Narfi Rúnarsson og Unnur Ösp Guðmundsdóttir. Hlutverk kennaranna var að prófa þær kennsluaðferðir og nota tækni sem þróuð var í CRISTAL. Auk þess hlutu þau þjálfun í notkun hinna ýmsu tækja sem tilheyra starfrænum smiðjum eða FabLabs. Kennarahópurinn fékk meðal annars í hendur verkefni sem nemendur í kennaranámi í Háskólanum á Akureyri höfðu þróað og prófuðu þau með nemendum sínum. En þau verkefni byggðu á notkun tækni í námi. Það er óhætt að segja að hver og einn kennari í tæknihópnum hafi þróaði eigin færni út frá styrkleikum sínum. Áður en verkefnið hófst höfðu þeir ólíka þekkingu og færni og því ólíkar forsendur til að takast á við verkefnið. Sumir hafa unnið meira með teikningar, prentun í tví- eða þrívídd og laserskurð á meðan aðrir hafa unnið meira með smáforrit, róbóta og örgjörvatækni.
Frá verkstæðisdegi í CRISTAL-verkefninu
Afurðir verkefnisins verða aðgengilegar á vef þess á næstu dögum. Megin afurðirnar eru verkfærakista og veflæg kennslustofa. Í verkfærakistunni er að finna ýmis konar verkefni og kennsluáætlanir þar sem notast er við tækni til að kenna t.d. stærðfræði og námsefnið nálgast með öðrum hætti en vant er og er öllum þeim sem skrá sig inn á vefinn frjálst að nota þau verkefni sem þar er að finna ásamt því að bæta fleiri verkefnum við. Í veflægu kennslustofunni geta kennarar sett upp námskeið um tiltekið námsefni, veitt nemendum aðgang að því og svo má nota kennslustofuna til að setja inn gagnlegt efni fyrir nemendur. Einnig hafa kennarar þann möguleika að skrá sig og nemendahóp sinn inn á CRISTAL vefinn í leit að samstarfsaðilum úti í heimi t.d. öðrum nemendahópum á svipuðum aldri sem eru að glíma við sömu verkefni.
Við þetta tækifæri viljum við hjá Þekkingarneti Þingeyinga þakka samstarfsaðilum okkar bæði hér heima og erlendis fyrir gott samstarf við CRISTAL verkefnið. Sérstakar þakkir fá kennararnir í tæknihópnum sem prufukeyrðu öll verkefnin sem þróuð voru í CRISTAL og verkefnastjórinn hún Selma Dögg Sigurjónsdóttir hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Ávinningur alþjóðlegra verkefna af þessu tagi felst ekki eingöngu í lokaafurðunum, hverjar sem þær kunna að vera, heldur einnig og kannski ekki síður í lærdómsríkum vinnuferli með tilheyrandi samvinnu og yfirfærslu hugmynda milli einstaklinga, stofnana og þjóða. Þetta á sannarlega vel við viðburðaríka vinnuna við verkefnið CRISTAL.
CRISTAL-heimasíðan hefur verið opnuð. www.cristal.is
Hún inniheldur allar upplýsingar um verkefnið og er hægt
að hagnýta sér afurðir þess að vild.