
Það var létt yfir nemendum í Fagnámi III þegar starfsmenn Þekkingarnetsins litu við í tíma hjá þeim í gær. Kristjana Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, var í miðjum fyrirlestri um lungnasjúkdóma. Nemendurnir í Fagnámi III koma úr heilbrigðis- og félagsþjónustunni og að þessu sinni eru 10 nemendur sem sitja námsleiðina, allt konur(fyrir utan einn gaur sem var stein sofandi þegar við litum inn í gær).
Námsleiðin telur þrjár lotur og hófst sú fyrsta á haustönn 2013, önnur lota á vorönn 2014 og sú þriðja og síðasta er sem sagt í gangi núna. Áætlað er að námsleiðinni ljúki mánudaginn 17. nóvember. Kennt er tvisvar í viku og hafa nemendur sótt námið einstaklega vel alveg frá upphafi námstímans. Um er að ræða mjög samstilltan og samheldin hóp og undantekning ef ekki er 100% mæting í tímana. Það þykir okkur ákaflega gleðilegt.

Bryddað var upp á nýjungum í kennsluháttum í þessari þriðju og síðustu lotu, á þann hátt að sett var inn verkleg kennsla, þannig að hluti einstakra námsþátta er kenndur verklegur á vinnustað. Þetta gerir nemendum kleift að prófa sig áfram undir leiðsögn fagmanna og ekki síður að sjá hvernig vinnan fer fram á heilbrigðisstofnun. Nemendurnir hafa tekið þessum nýjungum vel enda brjóta verklegu tímarnir upp hina hefðbundnu kennslu í fyrirlestraformi.