Íbúum fjölgar á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga

Í gær birti Hagstofa Íslands ný gögn um mannfjöldaþróun. Ár hvert tekur starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga saman gögn um þróun mannfjölda á starfssvæði Þekkingarnetsins og hófst sú vinna um leið og gögnin höfðu verið birt.

Fyrstu tölur og útreikningar sýna að íbúum fjölgaði um 45 á svæðinu, úr 5.007 í 5.052. Kynjahlutföll eru áþekk og undanfarin ár, 53% karlar og 47% konur. Meðaldur íbúa er 41,2 ár.

Ef einstakir byggðakjarnar eru skoðaðir þá fækkar íbúum á Laugum, Kópaskeri og Bakkafirði en fjölgar á Húsavík, í Reykjahlíð, á Raufarhöfn og Þórshöfn. Íbúum í dreifbýli fækkar í kringum Kópasker, Þórshöfn og Bakkafjörð en fjölgar annars í nágrenni Húsavíkur, Reykjahlíðar og Lauga. Í nágrenni Raufarhafnar er íbúafjöldi óbreyttur.

Hlutfallslega fjölgar íbúum mest í Tjörneshreppi um 8,93% og er það næst mesta hlutfallslega fjölgun á landinu öllu. Því næst í Skútustaðahreppi um 2,55% og loks í Þingeyjarsveit um 1,8%.

Meðalaldur íbúa lækkar í öllum sveitarfélögunum nema Norðurþingi og Svalbarðshreppi. Hæstur er meðalaldurinn í Tjörneshreppi, 56 ár samanborið við 57,9 árið 2021. Lægstur er hann í Langanesbyggð 39,3 ár samanborið við 40,6 ár árið 2021. Meðalaldur á landinu öllu er 38 ára og lækkar hann um 0,4 ár á milli áranna 2021 og 2022.

Mannfjöldaskýrslan verður gefin út á næstu vikum, en þangað til geta áhugasamir gluggað í eldri skýrslur sem finna má undir Rannsóknir á forsíðu www.hac.is og þar undir – útgefið efni

.

Deila þessum póst