Íslensk tónlistargátt fyrir innflytjendur

Þráinn Árni og staðkennsluhópurinn

Markmið verkefnisins var að bjóða upp á nýstárlega kennsluaðferð í íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, þar sem stuðst var að hluta til við tónlist sem kennslutæki. Íslenskan var kennd í gegnum íslenska söngvaarfinn. Kennarar námskeiðsins voru Þráinn Árni Baldvinsson, tónlistar- og grunnskólakennari og stofnandi tónlistarskólans Tónholts og Dóra Ármannsdóttir, íslenskukennari. Tilraunakennslan fór fram á vorönn 2023. Tveir hópar fóru í gegnum námskeiðið, 5 nemendur í hvorum. Öðrum hópnum var kennt í staðkennslu en hinum í fjarkennslu. Kennt var í tvær klst. í senn. Kennslan var þannig sett upp að fyrst mætti Þráinn Árni og kenndi nemendum fyrirfram ákveðin lög á Ukulele. Nemendur kunnu auðvitað mismikið á hljóðfærið og flestir höfðu aldrei spilað músík. En á þessu námskeiði skiptir það engu máli, allir nemendur mæta á sínum eigin forsendum og fengu kennslu sem hentaði hverjum og einum. Seinni klukkutímann var Dóra svo með nemendum og fór yfir texta laganna, þýðingu þeirra og tengingu í íslenska menningu. Nemendur fengu Ukulele að láni allt námskeiðið og gátu því farið með það heim milli tíma til að æfa sig. Verkefnið í heild teljum við að hafi heppnast mjög vel. Í dag eigum við tilbúið 20 klst. námskeið sem hægt er að kenna nokkurn vegin hvar og hvenær sem er.  

Deila þessum póst