Í dag var íþróttamaður Þekkingarnets Þingeyinga árið 2014 heiðraður. Athöfnin var stutt og óformleg en ákaflega ánægjuleg samt sem áður. Þetta er í fyrsta skipti sem valið á íþróttamanni ÞÞ er gert opinbert. Ástæðan er sú að hingað til hefur ekki þótt gott fyrir stofnunina að flagga íþróttaafrekum starfsmanna, svo lítilfjörleg hafa þau verið. En árið 2014 gerði Kristbjörn Óskarsson sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í Boccia.

Kiddi var í baráttu hér innanhúss við nokkra mis öfluga íþróttamenn. Má þar nefna Heiðrúnu Óladóttur knapa, Erlu Dögg, blakara (sem reyndar missti af stórum hluta íþróttaársins sökum meiðsla), Þorkel Lindberg, fótboltamann (sem náði að komast á 11 æfingar árið 2014, annars lá hann meiddur heima) og svo víðavangs-keppnis-hlauparann Óla Halldórsson sem meira að segja keypti sér leggings til að hlaupa í árið 2014. Fyrstu 4 mánuðina eftir að hann keypti sokkabuxurnar þá hljóp hann bara í myrkri af ótta við að sjást.
En Kiddi okkar stóð uppi sem sigurvegari og er vel að titlinum kominn. Kiddi samþykkti eftir athöfnina að keppa undir merkjum Þekkingarnetsins í næsta opna Boccia móti sem haldið verður í ársbyrjun 2016. Við munum því gjörsigra það mót.
Í lokin má nefna að Kiddi var á dögunum einnig útnefndur sem íþróttamaður Húsavíkur árið 2014, en það er auðvitað töluvert minni viðurkenning en sú sem hann tók við nú í morgunsárið.
Innilega til hamingju með þetta allt saman Kiddi.