Langaði að prófa eitthvað nýtt og Þekkingarnetið varð fyrir valinu

Undanfarin 3 ár hef ég stundað fjarnám frá Háskóla Akureyrar í kennarafræðum og hefur Þekkingarsetrið verið mitt annað heimili yfir veturinn. Síðastliðinn 9 ár hef ég verið með sjálfstæðan atvinnurekstur en í sumar langaði mig að breyta til og úr varð að ég sótti um sumarvinnu á Þekkingarnetinu, en ég hef alltaf heillast af frábærum starfsanda sem þar ríkir. Á vormánuðum fékk ég svar um að ég hefði fengið þar vinnu við rannsóknarverkefni sem unnið er af Þekkingarneti Þingeyinga og Háskóla Íslands. Þetta rannsóknarverkefni hefur verið framkvæmt yfir sumartímann í nokkur ár eða 2008, 2010, 2013 og nú 2014. Rannsóknin gengur út á að skoða ferðamannamynstur á Húsavík og í Mývatnssveit.

kiiddý

Í upphafi sumars byrjaði ég á því að vinna úr gögnum sem söfnuð voru árið 2013 og setja upp í skýrslu. Lilja Rögnvaldsdóttir hefur yfirumsjón með þessu verkefni og hef ég unnið undir hennar leiðsögn.  Eftir að þeirri gagnavinnu var lokið fórum við síðan í að endurbæta spurningarkönnunina áður en farið var á stúfana og ferðamenn spurðir spjörunum úr.

Til að niðurstöðurnar verði marktækar þarf að safna um 500 svörum bæði á Húsavík og í Mývatnssveit. Á Húsavík erum við staðsett fyrir utan upplýsingamiðstöðina og föngum þá ferðamenn sem eiga þar leið hjá. Fimm sjálfboðaliðar frá Hvalasafninu hafa verið okkur innan handar og hjálpað okkur við gagnaöflun sem komin er vel á veg, enn á einni viku höfum við náð rétt um 200 svörum.

Gagnaöflunin í Mývatnssveit fer fram við Dimmuborgir. Þar stöndum við úti rétt fyrir innan hliðið að gönguleiðunum. Gagnaöflunin þar gengur aðeins hægar en á Húsavík enda höfum við einungis náð að vera þar í þrjá daga, en veðurguðirnir hafa ekki verið okkur hliðhollir síðastliðna viku. Þó hafa safnast um 94 svör og eigum við því þónokkuð verk fyrir höndum þar. Vonandi verður bara veðurblíða þar næstu vikurnar.

Deila þessum póst