Málþing á morgun fimmtudag

Á morgun fimmtudag fer fram fjórða málþing Þekkingarnets Þingeyinga þar sem rannsóknir og verkefni unnin í héraði eru kynnt. Umfjöllunarefni málþingsins á morgun eru afar fjölbreytileg.
Sigurlaug Dagsdóttir sem er hönnuður sýningarinnar Laxárdeilan: Morgunroði náttúruverndar á Íslandi mun segja frá sýningunni og tilurð hennar. Margrét Hildur Egilsdóttir var háskólanemi í sumarstarfi hjá Þekkingarneti Þingeyinga sumarið 2021. Þar vann hún viðtalsverkefnið „Sögur úr sveitinni“ þar sem hún tók nokkra eldri íbúa Mývatnssveitar tali og afraksturinn var birtur í hlaðvarpi. Óli Halldórsson mun kynna rannsóknarverkefni sem starfsfólk Þekkingarnetsins vann að í samstarfi við starfsfólk Nýheima á Höfn í Hornarfirði. Verkefnið kallast Byltingar og byggðaþróun: Áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á Íslandi. Að lokum mum Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, fyrrum starfsmaður Þekkingarnetsins og doktorsnemi við Háskólann á Akureyri kynna hluta af niðurstöðum rannsókna sinna á slúðri í erindinu „Saga til næsta bæjar“.

Málþingið fer fram á Fosshótel Húsavík kl. 14:00-16:00 og eru allir velkomnir!

Deila þessum póst