
Fjölmennur hópur útlendinga hefur sótt íslenskunámskeið síðustu vikurnar á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga. Tveir hópar hafa verið í íslensku á Húsavík frá því í byrjun febrúar eða rúmlega 20 nemendur í heildina. Um er að ræða kvöldhóp sem stundar nám í íslensku 3A og morgunhóp sem er á sérsniðnu talnámskeiði þar sem íslenskir mentorar aðstoða kennara við að stýra umræðum í umræðuhópunum.
Á Kópaskeri er 11 manna hópur á íslensku 1B, en stór hluti þeirra sem sækja það námskeið eru að vinna hjá Fjallalambi og í Silfurstjörnunni. Á Raufarhöfn og á Bakkafirði eru 24 nemendur á byrjendanámskeiðum og vonumst við til að geta haldið áfram með þá hópa í íslensku. Það er mjög ánægjulegt að sjá þessa miklu aðsókn í íslenskunámið, sérstaklega á okkar allra fámennustu stöðum á starfssvæðinu.
