Föstudaginn 7.september sl. fór fram lokaráðstefna CRISTAL verkefnisins á Húsavík. Ráðstefnan var liður í Erasmus+ verkefninu CRISTAL sem hefur verið í gangi síðan 2015 og snýr að því að auka tæknimennt, nýsköpun og sjálfbærni í kennslu á leik – , grunn – og framhaldsskólastigi ásamt framhaldsfræðslu. Norðurþing er tilraunasamfélag í CRISTAL verkefninu og hafa kennarar á öllum skólastigum unnið með verkefnishópi að þróun og prófun afurða.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu sem lýkur í nóvember og eru samstarfsaðilar Þekkingarnet Þingeyinga, Háskólinn á Akureyri og tveir erlendir samstarfsaðilar, Lindberg&Lindberg sænskt sprotafyrirtæki á sviði vélaverkfræði og hugbúnaðarþróunar og Azienda Agricola „Dora“ sem er lífrænn ólífubóndi á Sikiley.
Um 120 manns sóttu ráðstefnuna og bar þar margt fyrir augum. Ráðstefnan hófst með erindi Selmu Daggar Sigurjónsdóttur, verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem fór yfir helstu niðurstöður skrifborðsrannsóknar á stöðu nýsköpunarmenntunar í Evrópu ásamt því að segja frá vinnusmiðjum tæknihóps CRISTAL verkefnis og helstu afurðum verkefnisins.
Þá fjallaði Ingvi Hrannar Ómarsson kennsluráðgjafi í Árskóla á Sauðárkróki um nýsköpun í skólastarfi og að breytingar verði að eiga sér stað hvað varðar kennsluhætti til framtíðar. Setti fram skemmtileg dæmi um hve mikilvægt það er að prófa sig áfram, gera mistök og reyna aftur. Nám í verki er mikilvæg lærdómsaðferð og þrátt fyrir að bækur séu til margs nytsamlegar þá kenna þær ekki endilega allar hliðar námsefnis sbr. að læra að hjóla er ekki hægt nema að prófa sig áfram.
Mats Lindberg kynnti lokaafurð CRISTAL sem er veflægt þekkingarsetur sem skiptist í tvo megingáttir, verkfærakistu með kennslugögnum, kennsluáætlunum og öðru gagnlegu efni annars vegar og hins vegar veflæg kennslustofa þar sem kennarar og fræðsluaðilar geta stofnað áfanga og haldið utan um námskeið, miðlað kennslugögnum og kveikjum.
Næst á dagskrá var erindi Vincenzu Ferrera sem er ólífubóndi á Sikiley. Í erindi sínu fjallaði hún um mikilvægi þess að kortleggja auðlindir í umhverfinu og hvernig sú vinna, samhliða þekkingu, tækni og hæfni, getur stutt við atvinnusköpun í dreifbýli. Einnig fjallaði hún um mikilvægi þess að deila því sem við lærum. Að læra með því að framkvæma (nám í verki) er mikilvæg kennsluaðferð þar sem að sum þekking fæst ekki nema með verklegri kennslu, ekki með hefðbundnu fyrirlestra formi.
Síðasta erindi dagsins var erindi Kristínar Dýrfjörð um skapandi skólastarf. Þróunin undanfarin ár hefur dregið úr skapandi leik barna í leikskólum og „frjálsum leik“ er jafnvel stýrt af starfsfólki með því að stýra hvaða efnivið(dót) má leika með í frjálsum leik. Hvernig má auka við skapandi starf í skólanum sem skilar okkur hæfum einstaklingum út í lífið.
Þekkingarnet Þingeyinga stýrði ráðstefnunni og sá til þess að allir stæðust tímamörk svo hægt væri að njóta hádegisverðarins og veðurblíðunnar sem úti var.
Eftir hádegisverð fengu ráðstefnugestir tækifæri til að prófa aðferðir og leiðir í skólastarfi og var afar ánægjulegt að sjá hversu duglegir allir voru að nýta það sem var í boði. Sýnd voru kennsluverkefni, námsskrár og stuðningsefni sem unnin hefur verið í CRISTAL verkefninu og hvernig megi nýta þau í kennslu. Einnig fengu gestir að prófa ýmiss smáforrit í kennslu t.d. bitsboard, padlet, answer garden, OSMO og fleira. Sýnd voru verkefni sem unnin hafa verið í handmennt við Borgarhólsskóla sem sameina stafræna tækni og sköpun. Sagt var frá notkun Microbit örgjörvatölva við Öxafjarðarskóla, forritun vélmenna og sýndur vélmennisarmur sem krakkar við skólann gerðu á þemadögum í fyrra. Þá var hægt að prófa þrívíddargleraugu og heyra allt um Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands heldur utan um. Síðast en ekki síst koma Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri með fjölmörg skemmtileg verkfæri til að nýta í kennslu STEM greina og var áhuginn gríðarlega mikill á öllu sem fyrir augu bar.
Óhætt er að segja að ráðstefnan heppnaðist einstaklega vel og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi var fyrir fjölbreyttum leiðum til að auka skapandi skólastarf. Gagnagrunnurinn sem verkefnið byggir á verður kynntur betur þegar hann er tilbúinn til notkunar.