Námskeið í maí og júní

IMG_7500Þingeyskir leiðbeinendur hafa verið áberandi í námskeiðahaldi í maímánuði, sem hefur verið afar blómlegt. Trausti Ólafsson, myndlistarmaður, heimsótti Mývetninga og kenndi þar áhugasömum hópi fólks undirstöðuaðtriðin í akrýlmálun. Heiðdís Austfjörð förðunarfræðingur kom og leiðbeindi skvísum á öllum aldri í sumarförðun og sagði frá straumum og stefnum í þeim efnum. Hún kynnti jafnframt tvennskonar vörulínur sem innihalda fallega og bjarta sumarliti. Ásta Hermannsdóttir næringarfræðingur var með áhugavert námskeið um næringu ungbarna og mjólkandi mæðra sem þótti afar fróðlegt og var vel sótt.

Eins og áður hefur komið fram hér í fréttum kom Héðinn Unnsteinsson, höfundur bókarinnar „Vertu úlfur – Wargus esto“ með skemmtilegt uppstand um geðheilbrigði og geðrækt þar sem um 100 manns mættu. Héðinn á einmitt ættir að rekja hingað í Þingeyjarsýslu.

Fyrstu dagar júnímánuðar voru notaðir í að halda námskeið fyrir þjóna á Húsavík, Mývatnssveit og á Laugum. Námskeiðin fóru fram inn á veitingastöðunum. Kennarinn, Hallgrímur Sæmundsson, sem kemur frá Menntaskólanum í Kópavogi, var afar ánægður með þátttakendur og námskeiðin í heild sinni.

 

 

 

 

Deila þessum póst