Norðurslóðaverkefnið Arctic STEM Communities

Í sumar hófst verkefnið Arctic STEM Communities sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPA Interreg), undir forgangshluta 3. Það er STEM Húsavík, með stuðningi frá Þekkingarneti Þingeyinga, sem stýrir verkefninu, en verkefnið var jafnframt fyrsta verkefnið til að hljóta styrk undir nýjum forgangshluta áætlunarinnar sem snýst um að efla samstarf stofnana á Norðurslóðum. Auk Íslands eru þátttökulönd Finnland og Írland.

Verkefnið snýst um að setja á fót samfélagsleg STEM eða STEAM námsvistkerfi í tveimur nýjum samfélögum á Norðurslóðum, auk þess að greina sérstaklega stöðu stelpna og kvenna í STEM. Þá vinnur hvert samfélag fyrir sig, þar með talið Húsavík, eitt þróunarverkefni með áherslu á stuðning við konur og stelpur í STEM. Það er Háskólinn í Galway og hin virtu LUMA samtök í Finnlandi sem eru þátttakendur í verkefninu ásamt STEM Húsavík, sem stýrir verkefninu. Nýlega fóru Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri verkefnisins og Bridget Burger sérfræðingur við verkefnið til Galway þar sem innleiðingarhluti verkefnisins var unninn. Í nóvember halda þær til Rovaniemi á Laplandi þar sem sama ferli mun eiga sér stað.

Verkefnið snýst um að vinna sama ferli og gert var á Húsavík, en það lítur að sjálfsögðu öðruvísi út í öðru samfélagi, en grunnurinn er sá sami, þ.e.a.s. að bjóða upp á faglegan ramma sem styður við STEM og STEAM nám innan og utan veggja hefðbundinna menntastofnana. Báðir þessir samstarfsaðilar, Galway og LUMA byggja á fyrri reynslu og styrkum grunni af STEM áherslum, en þrátt fyrir það dýpkar þessi vinna það sem fyrir er og tengir saman þá ólíku hagaðila sem vinna að eflingu STEM menntunar, sem jafnvel voru ekki í miklu samtali fyrir.

Þá mun Huld einnig kynna verkefnið á ráðstefnu NPA Interreg í Skellefteå, „vísindaborginni“, í Svíþjóð í nóvember sem ber yfirskriftina NORTHERN SKILLS: Navigating the Future NPA, þar sem áhersla á er lögð á þá færni sem kallað er eftir á vinnumarkaði framtíðar.

Ráðstefnan horfir til þess hvernig samstarfsverkefni og samfélög á Norðurslóðum geta stutt við þessa uppfærðu færni og laðað að og haldið því vinnuafli sem þörf er á í vinnuumhverfi framtíðar. Það rímar mjög við það starf sem byggt hefur verið upp á Húsavík, m.a. með því að vekja athygli á STEM í samfélaginu og mikilvægi STEM menntunar.

Það er mikill heiður fyrir STEM Húsavík með stuðningi frá Þekkingarneti Þingeyinga að leiða verkefnið, sem má líta á sem upphaf að enn frekara samstarfi stofnana á Norðurslóðum við að byggja upp öflug og virk STEM og STEAM námsvistkerfi.

Deila þessum póst