Þekkingarnetið hefur tekið þátt í norræna verkefninu SPARK síðan árið 2016. Verkefnið var ekki stórt í sniðum en snerist um samstarf á milli Íslands, Danmerkur, Finnlands og Eistlands, þar sem áhersla var á menningar sjálfboðaliða í dreifðum byggðum. Þátttakendur lærðu heilmikið hver af öðrum og öll svæðin eiga það sameiginlegt að á dreifbýlum svæðum veltur menningarstarf oftar en ekki á sjálfboðaliðavinnu. Það er líka gömul saga og ný að sömu einstaklingarnir veljast til ýmissa verka sem gerir samfélagslega vinnu þeirra oft þreytandi til lengdar. Innan verkefnisins voru því framkvæmd prufunámskeið, þar sem búið var að kortleggja þörf á hverju svæði fyrir sig. Á starfssvæði ÞÞ var prufunámskeiðið haldið á Þórshöfn þar sem aðilum úr björgunarsveit, kvenfélögum, jólamarkaðsnefnd, bryggjudaganefnd og Hrútadagsnefnd var boðin þátttaka félögunum. Guðlaug Gísladóttir verkefnisstjóri kenndi þar verkefnisstjórn með sérstaka áherslu á menningarviðburði. Í svörum þátttakenda kom fram að þeim fannst námkeiðið gagnlegt og myndi nýtast í daglegu lífi líka. Þá fannst þeim mikilvægt að læra að kortleggja helstu áhættuþætti sem horfast þarf í augu við á dreifðum svæðum og hvernig og hvenær þurfi að virkja „plan B“.
Lokaafurð verkefnisins er þessi Samantekt um námsskrá fyrir menningar sjálfboðaliða í dreifðum byggðum þar sem finna má ýmsan gagnlegan fróðleik ef gera á námsskrá eða setja upp námskeið, sem og stuttar samantektir um útkomu prufunámskeiðanna.