NorthQuake 2022 lauk í gær. Síðasti hluti ráðstefnunnar fjallaði um jarðskjálftaverkfræði, jarðskjálftavá og samfélagsleg áhrif.
Meðal erinda þar var erindi Sólveigar Þorvaldsdóttur um verkefni sem framundan er að unnið verði í samstarfi við sveitarfélögin Árborg, Fjallabyggð, Múlaþing og Norðurþing og snýr að því að bæta viðbrögð við jarðvá þannig að samfélög jafni sig fyrr eftir viðburði eins og jarðskjálfta, skriður og/eða flóð.
Þá var kynnti Brynjar Örn Arnarson niðurstöður lokaverkefnis síns til B.Sc. prófs í jarðfræði. Verkefnið fjallar um grundun húsa á Húsavík. Hluta verkefnisins vann Brynjar hjá Þekkingarnetinu sumurin 2020 og 2021. Hann var þá starfsmaður Norðurþings í gegnum átak stjórnvalda um sumarstörf námsmanna. Verkefnið var unnið í samstarfi við Benedikt Halldórsson, sem var leiðbeinandi Brynjars í lokaverkefninu. Starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga leiðbeindi um hagnýt atriði á staðnum og hafði umsjón með sumarstarfinu.
Það er óhætt að segja að okkur hafi þótt gaman að fylgja Brynjari eftir frá sumrinu 2020 þegar hann steig fyrstu skrefin í undirbúningi lokaverkefnisins til þess að hlýða á hann kynna niðurstöður og afrakstur vinnu sinnar. Jafnframt vonum við að við eigum eftir að sjá meira af Brynjari á þessum vettvangi, gjarnan með frekari rannsóknir eða niðurstöður á NorthQuake 2025.
Ráðstefnunni lauk á opnum fundi með pallborði þar sem íbúum gafst tækifæri til að spyrja sérfræðinga sem kynnt höfðu rannsóknaverkefni og niðurstöður á ráðstefnunni um jarðskjálfta og jarðskjálftavá. Jafnframt tók Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, þátt í pallborðinu og svaraði spurningum sem sneru að meðal annars viðbrögðum á vettvangi sveitarfélagins í tengslum við jarðskjálfta.
Við viljum að lokum þakka gestum NorthQuake 2022 fyrir komuna og hlökkum til að sjá þau öll og fleiri til á NorthQuake 2025.