Ný vefsíða Sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi

Þann 17. maí síðastliðinn opnaði Hörður Arnarson vefsíðu Sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi, www.gaumur.is

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er samfélagsverkefni sem hefur þann tilgang að fylgjast með samfélagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum breytingum á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörneshreppi í austri,

Á vefnum, sem er á slóðinni www.gaumur.is, geta notendur nálgast upplýsingar um þróun samfélags, umhverfis og efnahags á framangreindu svæði, sem talið er að muni verða fyrir hvað mestum áhrifum af uppbyggingu og starfsemi Þeistareykjavirkjunar, iðnaði á Bakka og auknum umsvifum í ferðaþjónustu. Einnig er að finna á vefnum ýmsan fróðleik um sjálfbæra þróun.

Meðal upplýsinga sem eru aðgengilegar á vefnum má nefna mannfjölda svæðisins, tekjur íbúa, samgöngur, lífríki, fasteignamarkað og hag einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Aðstandendur verkefnisins binda vonir við að þau gögn sem aflað verður og birt á vegum verkefnisins muni nýtast meðal annars við rannsóknir og kennslu á öllum skólastigum, stefnumótun opinberra aðila og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Aðstandendur verkefnisins eru Landsnet, Landsvirkjun, PCC, fulltrúar ferðaþjónustuaðila, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri ásamt sveitarfélögunum Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnisstjórn.

Lögð er áhersla á að vefurinn verði í stöðugri þróun og að nýjar upplýsingar verði birtar með reglubundnum hætti. Ábendingar frá notendum vefsins eru því vel þegnar.

IMG_8244gaumur

Deila þessum póst