Þekkingarnetið hefur síðustu misserin komið að verkefninu Gaum, sem er samfélagsverkefni sem hefur þann tilgang að fylgjast með samfélagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum breytingum Norðausturlandi. Upphaflega var til verkefnisins stofnað til að fylgjast með áhrifum og breytingum í kjölfar byggingar Þeistareykjavirkjunar og uppbyggingar atvinnustarfsemi á nærsvæðinu. Þeir sem standa að verkefninu og mynda stýrihóp þess eru Landsvirkjun, Landsnet, PCC Bakki Silicon, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eystra. Þekkingarnet Þingeyinga fer svo með verkefnisstjórn og framkvæmd.
Reglulega koma fram upplýsingar úr vöktun einstakra þátta. Þetta eru niðurstöður mælinga og athugana af ýmsu tagi. Á síðustu vikum hafa verið að birtast ýmis gögn um loftgæði, nú síðast út frá stöðu bílaflotans á svæðinu. Sjá hér nánar: https://www.gaumur.is/is/um-verkefnid/frettir/utblasturs-og-eydslugildi-bifreida-a-midsvaedi-laekkar
Þekkingarnetið hvetur íbúa, stofnanir og fyrirtæki til að hagnýta sér þær upplýsingar sem Gaumur birtir. Um er að ræða aðgengilegar upplýsingar sem gefa afar góða mynd af stöðu og þróun samfélags og umhverfis á Norðausturhorninu.