Öflug rannsóknastarfsemi í sumar þrátt fyrir áherslur Nýsköpunarsjóðs

Þekkingarnetið hefur á hverju einasta ári frá stofnun haldið úti rannsóknaverkefnum í samstarfi við háskólanema á starfssvæði sínu. Frá upphafi skipta þessi verkefnum mörgum tugum og hefur af nokkrum þeirra verkefna hlotist afurðir sem undið hafa upp á sig, s.s. með atvinnusköpun og/eða varanlegri búsetu á svæðinu. Eitt af meginmarkmiðum þessara verkefna er einfaldlega að tengja sem flesta háskólanema við sitt samfélag og koma því til leiðar að ungt fólk takist á við metnaðarfull störf á sínu sviði í heimahéraði.

Öll árin hefur Þekkingarnetið sent inn umsóknir í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Frá 1-2 og upp í 5-6 á hverju ári. Fyrsta áratuginn í starfi Þekkingarnetsins fengust ár hvert styrkir til verkefna í gegnum Nýsköpunarsjóðinn.  Sú breyting hefur orðið á síðustu árum að Þekkingarnetið fær ekki styrki lengur frá Nýsköpunarsjóðnum. Frá árinu 2014 hefur ekki fengist styrkur í neitt verkefni, þrátt fyrir umsóknir öll árin. Árið 2018 voru sendar inn 3 umsóknir án  árangurs.  Umsóknirnar hafa verið unnar bæði í nafni Þekkingarnetsins og í samstarfi við nemendur og aðrar menntastofnanir og fyrirtæki. Áherslur og vinnulag hafa ekki breyst hjá Þekkingarnetinu á þessum tíma svo skýringar á þessum breytingum eru líklega í vinnulagi og áherslum sjóðsins, sem nú er starfræktur af Rannís.

Þrátt fyrir þetta mun Þekkingarnetið halda áfram úti öflugu starfi háskólanema við rannsóknastörf. Um þessar mundir er verið að ganga frá ráðningum í störf og er útlit fyrir að verkefni komist á legg víða í héraðinu.  Fjármögnun þessara verkefna er að mestu á vegum sveitarfélaga héraðsins, en öll 6 sveitarfélög Þingeyjarsýslna leggja til fjármuni til þessara verkefna, alls um 2 m.kr á ári. Á móti því fjármagnar Þekkingarnetið af eigin rekstrarfé.

Deila þessum póst