Fimmtudaginn 24. ágúst var opið hús í Gíg í Mývatnssveit og komu margir góðir gestir, stórir og smáir að kynna sér þá uppbyggingu sem á sér stað á þessum einstaka stað.
Húsið er nú þegar lifandi vinnustaður og hýsir Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð sem og Ramý, Þingeyjarsveit, Þekkingarnet Þingeyinga, Landgræðsluna, og Huldu – náttúruhugvísindasetur sem er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands og Svartárkots menningar – náttúru.
Landverðir buðu upp á skemmtilega barnadagskrá, þar á meðal vel heppnaða fjársjóðsleit í dásemdarveðri og mýfluguskoðun í víðsjá. Boðið var upp á kaffi og nýsteiktar kleinur frá Ólínu í Hraunkoti og leiðsögn um húsið, sem hefur verið endurbætt að stórum hluta.