Eitt af meginverkefnum Þekkingarnetsins er að þjónusta háskólanema sem búsettir eru í héraðinu. Ásamt því að hýsa námsfólk frá öllum mögulegum skólum í námsverunum frá degi til dags, eru fjarprófin fyrirferðamikill hluti þjónustunnar. Á hverju ári eru fjarpróf á bilinu 300-400 alls og yfirleitt einhver próf frá hverjum háskóla landsins og stundum einnig frá erlendum háskólum. Þá eru líka tekin fjarpróf frá öðrum skólum en háskólum, svo sem tækni- og verkmenntaskólum og endurmenntunardeild m skóla.
Háskólanemum í prófum og prófaundirbúningi fylgir alltaf ákveðið líf og spenna í lofti. Á Húsavík er lesrými fjarnema í notkun stærstan hluta sólarhringsins og ekkert minna um helgar en virku dagana. Það er með mikilli ánægju sem Þekkingarnetið gerir ráð fyrir hærri kaffikostnaði í desember og hefur sú hefð myndast til margra ára að lauma stundum konfektbauk í lesrýmið með.
Allir fjarnemar eru hvattir til að nýta sér les- og prófaaðstöðu Þekkingarnetsins. Bæði á Húsavík í aðalstarfstöðinni, en ekki síður annars staðar í Þingeyjarsýslum, þar sem stofnunin rekur námsver í öllum þéttbýliskjörnum héraðsins.