Spennandi námskeið í september.

Nú eru skráningar á september námskeiðin í fullum gangi. Á Húsavík eru tvö námskeið eftir í september, Heilsa fyrir alla og Hraðlestrarnámskeið.

2013_Welcome_s
Ebba Guðný.

Heilsa fyrir alla er námskeið með Ebbu Guðnýju. Flestir þekkja Ebbu Guðnýju ekki síst fyrir matreiðsluþætti sína í ríkissjónvarpinu og bækurnar „Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða“ og „Eldað með Ebbu í Latabæ“. Ebba heldur úti eigin heimasíðu sem er hlaðin fróðleik www.pureebba.com. Hún hefur haldið fjölmörg námskeið og kennt foreldrum hvernig má búa til einfaldan, hollan, næringarríkan og góðan mat fyrir börn allt frá 6 mánaða aldri. Á þessu námskeiði mun Ebba Guðný segja okkur hvernig við getum á auðveldan hátt gert eitt og annað til að bæta heilsu okkar og fjölskyldu okkar. Hún gefur okkur hagnýt ráð og fullt af fróðleik sem ætti að geta nýst öllum, ungum sem öldnum.

Hraðlestrarnámskeið er helgarnámskeið auk þriggja vikna æfingarkerfis. Á helgarnámskeiðinu fer kennari í gegnum grunntæknina, af hverju við lesum almennt svona hægt, hvernig hægt er að rúmlega tvöfalda lestrarhraða án þess að skilningur detti niður, af hverju lestrarskilningur og lestraránægja eykst við að lesa hraðar, skoðar lestur mismunandi lesefnis, leiðir til að finna aðalatriði með skjótum hætti. Einnig er farið í gegnum grunnþætti þess að glósa markvissar og mismunandi glósuleiðir í vinnu eða námi, lestur af tölvuskjá eða lófatölvum, hvernig halda megi yfirsýn yfir mikið lesefni, leiðir til að halda meiri einbeitingu í lestri jafnvel undir miklu álagi, leiðir að betri undirbúningi fyrir kennslustundir og fundi. Þá er einnig farið í gegnum mismunandi æfingar sem nota má í framtíðinni.
Kennarinn, Jón Vigfús Bjarnason, leiðir þannig þátttakendur inn í 3 vikna æfingakerfið og afhendir ítarleg námsgögn. – Sjá meiri upplýsingar um helgarnámskeið Hraðlestrarskólans á www.h.is/helgi

IMG_5843
Svavar H. Viðarsson ræðir við nemendur á námskeið.

Í október verða einnig mjög skemmtileg námskeið í boði, má þar nefna Lamb á 10 vegu, þar sem Húsvíkingurinn Eyþór Mar Halldórsson einn af eigendum Sushi Samba kemur og kennir okkur nýjar leiðir til að elda lamb. Svavar H. Viðarsson mun mæta til okkar með nýtt námskeið sem kallast Leiðtogafærni. Svavar mun halda námskeiðið sitt bæði hér á Húsavík og á Þórshöfn. Einnig verður haldið námskeið í samstarfi við Matarfínknarmiðstöðina. Á Laugum og í Mývatnssveit munum við svo bjóða upp á iPad námskeið. Sem sagt allt að gerast á næstunni í námskeiðahaldi.

Þeir sem hafa áhuga á þessum spennandi námskeiðum er ráðlagt að hafa samband sem fyrst í síma 464-5100.

Deila þessum póst