Spennandi námsleiðir á vorönn

Nú á vormánuðum stefnum við á Þekkingarnetinu á að fara af stað með þrjár spennandi námsleiðir sem kenndar verða bæði hér á Húsavík og Þórhöfn.

IMG_2941
Nemendur Þekkingarnetsins á Raufarhöfn.

Tölvur- og upplýsingatækni fyrir 50+ er 150 kest. námsleið sem ætluð er fólki á vinnumarkaði sem vill auka færni til að takast á við breytingar í starfi og auka færni sína í upplýsingatækni og tölvum. Helstu námsþættir eru; vafri og netið, rafræn samskipti, myndvinnsla, ritvinnsla, töflureiknir, spjaldtölvur, snjallsímar, færnimappa, námstækni o.fl. Námsleiðin verður kennd bæði á Húsavík og á Þórshöfn.

Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum er 320 kest. námsleið sem má meta til allt að 17 eininga á framhaldsskólastigi. Námið er ætlað þeim sem eru eldri en 23 ára og hafa ekki lokið námi í framhaldsskóla. Kennt verður eftir kl. 17:00 á daginn, tvisvar til þrisvar í viku bæði í staðarnámi og fjakennslu.

Fagnám III fyrir starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu er 198 kest. námsleið sem ætluð er þeim sem aðstoða, annast um eða hlynna að sjúkum, fötluðum og öldruðum á einkaheimilum eða stofnunum. Einnig þeim sem á einkaheimilum eða stofnunum aðstoða skjólstæðinga sína við innkaup, þrif og persónulega umhirðu auk þess að veita skjólstæðingum sínum félagslegan stuðning og aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun. Helstu námsþættir eru; siðfræði, vinnnuumhverfið, eftirlit-umönnun og aðstoð við skjólstæðinga, aðhlynning rúmliggjandi, lyf og lyfjagjöf, algengir líkamlegir sjúkdómar, algengar geðraskanir o.fl. Námsleiðin verður kennd á Þórshöfn.

Eins og sjá má er margt spennandi í boði og um að gera fyrir alla þá sem hafa áhuga á þessum námsleiðum að setja sig í samband við starfsfólk Þekkingarnetsins og fá frekari upplýsingar í síma 464-5100.

Deila þessum póst