Starfsfólk ÞÞ sótti byggðaráðstefnu á Vík í Mýrdal um menntun án staðsetningar

Þekkingarnetið lagði land undir fót í síðustu viku og tók þátt í byggðaráðstefnu á Vík í Mýrdal.  Yfirskrift ráðstefnunnar var „Menntun án staðsetningar?“ og tengdust erindin því á einn eða annan hátt. Meðal þess sem vakti sérstakan áhuga starfsfólks ÞÞ var umræðan um hlutverk FabLab smiðja við þjálfun og færni sem nýtist atvinnulífinu og skapar samkeppnishæfara samfélag. Þar lýsti Frosti Gíslason verkefnisstjóri FabLab Ísland hvernig notendur Fab Lab smiðjanna eru þjálfaðir upp fyrir störf framtíðarinnar sem krefjast meðal annars greiningarhæfni, seiglu, sveigjanleika ásamt skapandi, lausnarmiðaðar og gagnrýninnar hugsunar. FabLab Húsavík verður eitt af níu FabLöbum landsins þegar það opnar um áramótin.

Fjölmörg önnur áhugaverð erindi voru á dagskrá s.s. ”Grasrótin og gervigreind: Geta mennta- og menningarstofnanir fleytt landsbyggðinni inn framtíðina?” þar sem Vífill Karlsson hagfræðingur ræddi m.a. hvort menntun fólks hafi áhrif á viljann til að flytja úr byggðum landsins.

Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði flutti einnig erindi um tengsl menntunar og búferlaflutninga á Íslandi sem bar yfirskriftina ”Menntum við börnin burt eða kjurt?” og Anna Guðrún Edvardsdóttir ræddi stöðu og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun.

Upptaka af ráðstefnunni verður aðgengileg á vefsíðu Byggðastofnunar innan skamms, ásamt glærum fyrirlesaranna.

Deila þessum póst