Þekkingarnet Þingeyinga hefur ráðið í nýtt starf verkefnastjóra í nýsköpun á Húsavík. Stefán Pétur Sólveigarson hefur verið ráðinn í starfið. Stefán Pétur hefur starfað sem vöruhönnuður undanfarin ár og hefur margvíslega reynslu og menntun á sviði hönnunar og nýsköpunar.
Stefán Pétur mun leiða uppbyggingarstarf á sviði nýsköpunar á Húsavík í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk Þekkingarnetsins. Meðal verkefna verður uppsetning og mótun Fab-lab smiðju, stofnun frumkvöðlaseturs og tengslamyndun innan og utan lands í tengslum við þessa starfsemi. Þá mun Stefán Pétur koma að vinnu við þróun húsnæðiskosts og útfærslu kringum það á næstu mánuðum.
Stefán Pétur hyggst flytja til Húsavíkur með fjölskyldu sinni komandi sumar til að sinna starfinu og mun hefja störf á næstu vikum.
Starfsfólk Þekkingarnetsins býður Stefán Pétur og hans fólk innilega velkomið til Húsavíkur og hlakkar til samstarfsins.
Stefán Pétur Sólveigarson (hægri) með Óla Halldórssyni forstöðumanni eftir undirritun ráðningarsamnings.