Þekkingarnet Þingeyinga ræður á hverju ári til sín nokkra háskólanema til sumarstarfa. Það er ýmist gert í gegnum styrki frá Nýsköpunarsjóði námsmanna eða í gegnum verkefni Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir háskólanema. En að auki eru sumarstörfið fjármögnuð með verkefnasjóði Þekkingarnetsins.
Í sumar höfum við notið þess að hafa hjá okkur fjóra háskólanema í rannsóknarverkefnum. Þau eru Berglind Jóna Þorláksdóttir, Elís Orri Guðbjartsson, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sonja Sif Þórólfsdóttir. Öll fengu þau vinnu í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar um ráðningu háskólanema til sumarstarfa. Tvö þeirra, þau Berglind Jóna og Elís Orri voru ráðin til Þekkingarnetsins en þær Sigrún Björg og Sonja voru starfsmenn sveitarfélaganna Norðurþings og Skútustaðahrepps en nutu aðstöðu og leiðsagnar starfsmanna Þekkingarnetsins við sín verkefni.
Þar sem þau eru nú um það bil að ljúka störfum eða hafa lokið störfum lögðum við fyrir þau nokkrar spurningar um sumarstarfið og reynsluna af því. Um leið þökkum við þeim gott samstarf í sumar.
Nafn: Berglind Jóna Þorláksdóttir
Fæðingardagur: 14. september 1991
Nám og skóli: Menntunarfræði M.Ed. í Háskólanum á Akureyri
Verkefni í sumar: Verkefnið mitt í sumar er hluti af meistaraverkefni mínu þar sem ég skoða tengsl milli búsetu, menntunar og atvinnu. Það sem ég skoða í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga er hvaða þættir það eru sem skipta mestu máli hjá ungu fólki frá Húsavík þegar það tekur ákvörðun um framtíðar búsetu sína.
Hvernig þótti þér að vinna rannsóknaverkefni sem tengdist heimbyggðinni? Það er alltaf skemmtilegt vinna verkefni sem tengjast Húsavík á einn eða annan hátt.
Hver var áhugaverðasti hluti sumarstarfsins? Áhugaverðasti hluti sumarsins var án efa að kynnast öllu þessu frábæra fólki sem vinnur í Langanes húsinu, kynnast skipulagðri starfsemi Þekkingarnetsins og svo ber að auðvitað að nefna þann heiður að fá að hlusta á Ogga og hans viskubrunn í kaffinu.
Hvað er næst á dagskrá hjá þér að loknu sumarstarfi hjá Þekkingarnetinu? Ég starfa hjá Norðurþingi sem móttökustjóri ásamt því að vera að vinna að meistararitgerð.
Eitthvað að lokum? Takk fyrir mig kærlega!
Nafn: Elís Orri Guðbjartsson
Fæðingardagur: 21. ágúst 1992
Nám og skóli: Útskrifaður úr mann- og stjórnmálafræði úr Háskóla Íslands
Verkefni í sumar: Verkefnið bar heitið: Áhrif sameiningar sveitarfélaga í dreifðum byggðum á íbúalýðræði og þátttöku íbúa í sveitarstjórnmálum. Ég tók viðtöl við sex íbúa Tjörneshrepps og sex íbúa Reykjahverfis, en viðmælendum var bæði kynja- og aldursskipt og síðar valdir með slembiúrtaki. Markmiðið rannsóknarinnar var að athuga hvort munur væri á annars vegar Tjörneshreppi, fámennu sveitarfélagi, og hins vegar Reykjahverfi, sem sameinaðist Húsavíkurbæ 2002, og Norðurþingi 2006, sem er álíka fámennt og Tjörneshreppur, þegar kemur að íbúalýðræði og þátttöku í sveitarstjórnmálum.
Hvernig þótti þér að vinna rannsóknaverkefni sem tengdist heimbyggðinni? Að eiga möguleika á því að starfa á Þekkingarneti Þingeyinga og geta nýtt nám síðustu ára á praktískan hátt er ómetanlegt, og ekki skemmir fyrir að eyða sumrinu á fallegasta stað landsins – Húsavík.
Hver var áhugaverðasti hluti sumarstarfsins? Án nokkurs vafa að framkvæma mína fyrstu rannsókn og þurfa að fylgja henni eftir frá A-Ö. Viðtölin sem ég tók og vann úr standa þar líklega fremst á meðal jafningja.
Hvað er næst á dagskrá hjá þér að loknu sumarstarfi hjá Þekkingarnetinu? Núna mun ég leggja land undir og fót og halda til Bretlands.
Eitthvað að lokum? Ég þakka starfsmönnum Þekkingarnets Þingeyinga, Náttúrufræðistofu Norðausturlands og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra kærlega fyrir sumarið.
Nafn: Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir
Fæðingardagur: 30. mars 1990
Nám og skóli: BA gráða í mannfræði frá Háskóla Íslands. Stunda nú meistaranám í mannfræði við sama skóla.
Verkefni í sumar: Vann eigindlega viðtalsrannsókn á upplifun og aðlögun innflytjenda í Norðurþingi.
Hvernig þótti þér að vinna rannsóknaverkefni sem tengdist heimbyggðinni? Það eru forréttindi að ungir Húsvíkingar geti leitað heim og fundið þar stofnun eins og Þekkingarnetið sem er tilbúið að taka á móti háskólanemum með ólíkan bakgrunn og leyfa þeim að spreyta sig á hinum ýmsu verkefnum. Þegar ég hóf grunnnám í mannfræði ranghvolfdu margir augunum og spurðu hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera við þessa gráðu. Oft átti ég erfitt með að svara en reyndi þó að útskýra fyrir fólki að gráðuna væri sko bara víst hægt að nýta í ýmsar rannsóknir á Íslandi, jafnvel heima á Húsavík, en ekki bara í fjarlægum löndum. Ég viðurkenni þó að innst inni átti ég ekki von á að mér tækist að gera meistaraverkefni í mannfræði á mínum heimaslóðum og er ég því himinlifandi með þetta tækifæri og á frábæru starfsfólki Þekkingarnetsins það að þakka að þetta verkefni varð að veruleika.
Hver var áhugaverðasti hluti sumarstarfsins? Áhugaverðasti hluti sumarstarfsins var án efa að fá að taka viðtöl við innflytjendur búsetta í Norðurþingi. Þar fékk ég tækifæri til að tala við og kynnast fólki með ólíkan bakgrunn og uppruna. Þar að auki fékk ég tækifæri til að sjá bæinn minn í nýju ljósi út frá upplifun innflytjenda sem eru þar búsettir og var það virkilega áhugavert.
Hvað er næst á dagskrá hjá þér að loknu sumarstarfi hjá Þekkingarnetinu? Þegar þetta er skrifað sit ég á skrifstofu íslenska sendiráðsins í Kampala, höfuðborg Úganda. Þar sinni ég, sem starfsnemi, allskyns spennandi verkefnum sem snúa meðal annars að menntamálum í landinu. Því starfi lýkur í desember og held ég þá aftur til Íslands þar sem ég mun halda áfram með lokaverkefni mitt í meistaranáminu, sem verður unnið út frá rannsókninni sem ég vann hjá Þekkingarnetinu í sumar.
Eitthvað að lokum? Ég hvet alla háskólanema til að kynna sér Þekkingarnetið og þau verkefni sem þar eru unnin. Það er mikil uppbygging í gangi í Norðurþingi núna og því fullt af tækifærum fyrir ungt fólk að stunda þar margvíslegar rannsóknir.
Nafn: Sonja Sif Þórólfsdóttir
Fæðingardagur: 26. febrúar 1994
Nám og skóli: Félagsfræði og stjórnmálafræði í Háskóla Íslands
Verkefni í sumar: Megin verkefni mitt í sumar var rannsókn sem ég vann fyrir Skútustaðahrepp. Verkefnið sneri að því að kanna þjónustu fyrir eldri íbúa í sveitarfélaginu og fól meðal annars í sér viðhorfskönnun og samanburð við önnur sveitarfélög. Einnig sá ég um að safna gögnum fyrir ferðavenjukönnun á vegum Lilju Rögnvalds og Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Þá stóð ég ásamt Sigrúnu Björgu eða Elís Orra fyrir utan Hvalasafnið að spjalla við ferðamenn og lagði fyrir þá stutta könnun.
Hvernig þótti þér að vinna rannsóknaverkefni sem tengdist heimbyggðinni? Það var mjög gaman að kynnast Skútustaðahrepp betur sem og að kanna hvaða þjónustu aldraðir á Íslandi fá.
Hver var áhugaverðasti hluti sumarstarfsins? Það var mjög gefandi að fá að hringja í alla eldri en 60 ára í Mývatnssveit.
Hvað er næst á dagskrá hjá þér að loknu sumarstarfi hjá Þekkingarnetinu? Ég er að fara hefja síðasta árið mitt í BA-náminu og mun því flytja aftur til Reykjavíkur eftir gott sumar heima á Húsavík.
Eitthvað að lokum? Ég mæli sterklega með að vinna í Þekkingarnetshúsinu því það eru þrjú Pokéstop þar í kring. Og kaffið hans Ogga er það besta og svartasta í bransanum.