Sumarverkefni um jarðskjálftaáhættu á Húsavík

Óhætt er að segja að sumarverkefni Brynjars Arnar Arnarsonar um grundun og burðarvirki húsa á Húsavík eigi sérlega vel við þessa dagana þar sem tilgangur þess er að fá betri sýn á mótstöðu húsanna gegn álagi í jarðskjálftum. Brynjar er nemi í jarðfræði í HÍ og vinnur verkefnið undir leiðsögn dr. Benedikts Halldórssonar, sérfræðings á sviði jarðskjálftafræði og jarðskjálftaverkfræði. Á næstu dögum mun Brynjar hafa samband við eigendur húsa sem byggð voru fyrir árið 1945 og óska eftir stuttu viðtali við þá og skoðun ytra byrðis húsanna.  Verkefnið er mikilvægt innlegg í stærra verkefni sem Benedikt stendur fyrir og snýr að jarðskjálftamælingum í byggð á brotabeltum Íslands. Þétt mælanet var sett upp á Húsavík árið 2012 sem gaf mikilvægar upplýsingar í jarðskjálftahrinunum 2012 og 2013 og gegnir þýðingarmiklu hlutverki í jarðskjálftahrinunni nú. Þessar mælingar eru notaðar til að kortleggja mismunandi jarðskjálftahreyfingar á Húsavík auk þess sem upplýsingarnar sem nú er safnað um mannvirki og grundun þeirra nýtist síðan til nákvæmara mats á dreifingu jarðskjálftaáhættu á Húsavík. Við hvetjum alla til að taka vel á móti Brynjari Erni á næstu dögum.

Deila þessum póst