SUSTAIN IT – Evrópuverkefni Þekkingarnetins

Líkt og heimurinn allur hefur SUSTAIN IT verkefnið þurft að breyta skipulagi sínu og áætlunum vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Fundir eru haldnir reglulega í gegnum forritið Zoom þar sem farið er yfir stöðu verkefnisins og áætlanir gerðar um framvinduna á þessum nýju og fordæmalausu tímum. Aðstæður eru mjög mismunandi í þátttökulöndunum og samráðið því einkar mikilvægt. Á fundina mæta fulltrúar frá öllum samstarfsaðilum verkefnisins en þeir koma frá; Belgíu, Kýpur, Ítalíu, Íslandi, Írlandi og Spáni. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Þekkingarnet Þingeyinga og Nýheimar Þekkingarsetur hafa nú þegar staðið fyrir tveimur rýnihópsfundum um SUSTAIN IT verkefnið á Zoom í samstarfi við Kjartan Bollason lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Þar fóru ferðaþjónustuaðilar á svæðinu yfir námsefni verkefnisins og gáfu góð ráð og ábendingar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Á vefsíðu verkefnisins má nálgast fræðslupakka fyrir ferðaþjónustuaðila. Í verkfærakistunni eru átta fræðslupakkar. Þá er hægt að skoða á síðunni með flettihnöppum eða hlaða niður sem pdf og ppt, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum best.

Enn er efnið í mótun og þiggjum við allar athugasemdir og ábendingar með þökkum undir Endurgjöf.

 Nánari upplýsingar um SUSTAIN IT verkefnið má nálgast á vefsíðu verkefnisins: www.sustainit.eu

Verkefnið snýr að því að skapa markvissar aðferðir til þjálfunar starfsfólks og rekstraraðila í ferðaþjónustu þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Þjálfunin fer fram sem bein kennsla eða yfirfærsla á þekkingu en einnig á starfrænu formi á heimasíðu verkefnisins. Markhópurinn er núverandi og mögulegir aðilar í ferðaþjónustu og er markmiðið að bæta samkeppnishæfni þeirra og þekkingu. Mikil áhersla verður lögð á smærri ferðaþjónustuaðila sem alla jafna sjá sér ekki fært að skrá sig í langtíma nám eða námskeið. Markmiðið er því að fræðslan verði aðgengileg og auðskilin og nýtist vel einyrkjum og smærri ferðaþjónustuaðilum.

 

 

Deila þessum póst